143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[23:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hér og draga saman umræðuna. Það er vel við hæfi. En mig langar til að spyrja þeirrar spurningar sem kom eiginlega mjög oft fram í umræðunni. Þetta frumvarp er lagt fram vegna kjarasamninga, til að liðka fyrir kjarasamningum á almennum markaði. Samtök launafólks, ASÍ, stærstu samtök launafólks á Íslandi með yfir 100 þúsund félagsmenn, telja áherslurnar óheppilegar í frumvarpinu og kalla mjög eftir því að í stað þess að lækka álögur á áfengi og tóbak verði gjaldskráin lækkuð í heilsugæslunni, en hún var hækkuð verulega um áramótin.

Þess vegna langar mig að spyrja framsögumann málsins, hv. þm. Pétur Blöndal, hvort þetta hafi ekki komið til umræðu í nefndinni, alla vega minnist meiri hlutinn ekkert á þetta í nefndaráliti sínu, og hvort þingmanninum finnist við hæfi að ganga svo gegn óskum samtaka launafólks, sem þessi yfirlýsing var nú gefin út til að liðka fyrir að það samþykkti kjarasamninga. Þess vegna spyr ég, herra forseti: Af hverju var ekki reynt að koma til móts við þær óskir?