143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs af því að ég hef verið að fylgjast með störfum hv. efnahags- og viðskiptanefndar af kantinum. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd en hef verið að kynna mér umsagnir um kosningamál Framsóknarflokksins, skuldaleiðréttinguna og séreignarsparnaðinn, ég hef farið yfir umsagnir og fylgst með fréttum. Þetta stóra loforð var kallað heimsmet, þó að það sé talsvert minna að vöxtum en sagt var fyrir kosningar vekur það athygli mína hvað er hægt að lesa úr þessum umsögnum og ekki síst hve mjög aukakostnaður við loforðið virðist vera vaxandi hvort sem horft er til kostnaðar Íbúðalánasjóðs sem nú er allt í einu á bilinu 7,5–24 milljarðar. Hann átti að vera miklu minni. Eins þegar skoðað er langtímatap sveitarfélaga vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar, þegar reynt er að spá fyrir um útgjöld almannatrygginga vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar en líka þegar horft er til minnisblaða hæstv. fjármálaráðherra þar sem fram kemur að afar fá heimili munu fá hámarksniðurfærslu. Og þegar horft er til þess að stofnunin sem á að framkvæma niðurfærsluna segir að ekki gangi að opna fyrir umsóknir 15. maí stígur hæstv. forsætisráðherra fram og segir: Jú, víst.

Virðulegi forseti. Mér finnst einhver fúskbragur á þessu þegar ekki er hlustað á athugasemdir stofnana. Tilfinning mín er að kappsemi manna við að ná málinu í gegn dragi úr forsjálninni og menn hafi gleymt því að kapp er best með forsjá. Á góðum pítsustað eru menn með hráefnin á borðinu áður en þeir byrja að baka og vita um það bil hver niðurstaðan verður.

Á sama tíma heyrum við svo fregnir, því að allt snýst þetta um forgangsröðun, af ársfundi Landspítalans þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra stígur fram og segir: Því miður, við höfum ekki efni á að byggja hér nýjan spítala fyrir 60 milljarða kr., nýjan spítala sem mun bæði stórbæta heilbrigðisþjónustu allra landsmanna og auka hagræðingu í rekstri spítalans. Þegar þessum valkostum er stillt upp sannfærist ég enn frekar um að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) stjórnist af kappi frekar en forsjá, stjórnist af skammtímahagsmunum frekar en langtímahagsmunum þjóðarinnar allrar.