143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég viðurkenni það að ég verð alltaf jafn hugsi þegar heyrist héðan úr salnum að verið sé að hjálpa ríkustu fjölskyldum á Íslandi að laga til í húsnæðismálum hjá sér (Gripið fram í: Það er staðreynd.) vegna þess að 60% af þeirri niðurfærslu sem gerð verður kemur í hlut heimila sem hafa heimilistekjur upp á 8 milljónir á ári, sem er svona svipað og tveir kennarar búi saman. Það er ríka fólkið hennar Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. 80% af skuldaniðurfellingunni kemur í hlut heimila sem skulda meira en 50% í eignum sínum. Það er ríka fólkið sem skuldar meira en helming í húsunum sínum. 50% upphæðarinnar koma í hlut heimila sem eru með 6 milljónir og undir í árstekjur, heildarheimilistekjur. Það er eins og tveir ASÍ-félagar búi saman á meðallaunum, ríka fólkið. Þetta eru staðreyndir málsins. Allan þann tíma, allan þennan feril sem málið hefur verið til umræðu í þinginu hefur sífellt verið reynt að gera lítið úr því, reynt hefur verið að gera það tortryggilegt, reynt hefur verið að sá fræjum tortryggni og ótta í hjörtu fólks en við erum ekki hér til þess. Við erum ekki að sá fræjum ótta og tortryggni. Við erum hér til að auka bjartsýni og þor. Það gerum við m.a. með því að hjálpa íslenskum heimilum til að komast aftur á beinu brautina.

Það er hins vegar eitt atriði sem mig langar aðeins að ræða sem ekki einn einasti held ég, með einni undantekningu kannski, af fulltrúum vinstri aflanna á þingi hefur tekið undir með mér en það er hátt vöruverð og tregða verslana til að lækka innfluttar vörur með styrkingu krónu. Það hefur ekki nokkur einasti maður held ég, með einni undantekningu, tekið undir það með mér þegar ég hef tekið það hér upp. (Gripið fram í.)