143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hafði ekki áttað mig á því að stjórnarliðar væru komnir í svo fullkomið rökþrot með skuldamál sín að það eina sem stæði eftir hjá þeim væri að hrópa Icesave. En það heyrðum við formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins gera áðan. Það voru einu rökin sem hv. þingmaður hafði fyrir skuldamálum ríkisstjórnarinnar, að hrópa Icesave.

Það er ágætissamanburður. Ef við segjum að miðað við síðustu núvirta útreikninga fjármálaráðuneytisins á því hvað upphaflegi Icesave-samningurinn hefði kostað voru það um 70 milljarðar kr. en hér er verið að senda vel rúmlega tvöfaldan þann reikning vegna skulda kosningaloforðs framsóknarmanna inn í framtíðina, á börnin okkar. Það er alveg ljóst að kostnaður vegna þessara aðgerða lendir öfugum megin við 150 milljarða kr. þegar allt verður saman talið, skatttekjurnar, tapaðar framtíðarskatttekjur hjá ríki og sveitarfélagi. Það er talsvert.

Svo koma stjórnarliðar og segja að það sé algjör misskilningur að verið sé að hygla tekjuhærra fólki þótt bæði frumvörpin hafi það í eðli sínu að þeim mun hærri tekjur eða meiri skuldir sem menn hafa, þeim mun meira fái þeir út úr aðgerðunum.

Menn nýta séreignarsparnaðinn í samræmi við tekjur og nú hefur meiri hlutinn enn gefið í með því að hækka fjárhæðarmörkin þar.

Í morgun fengum við gögn frá ríkisskattstjóra sem sýna að yfir 400 einstaklingar sem greiða auðlegðarskatt munu fá niðurfelld lán um leið og þeir fá það frá ríkisstjórninni að auðlegðarskatturinn verði felldur niður. 229 fjölskyldur með hreina eign yfir 120 millj. kr. skulda samt að meðaltali um 9,5 milljónir í húsnæðinu og fá lækkun lána. Hvernig ætla menn að halda því fram að þessar aðgerðir séu ekki þar með að hygla og búa til auð hjá meðal annars ríkasta fólkinu á Íslandi? Þær munu gera það eins og sést á því að kannski um 400 fjölskyldur sem hafa greitt auðlegðarskatt hætta núna að greiða hann í boði ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) en fá lækkun skulda sinna í staðinn.