143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæða um mál sem er orðið eitthvert mesta háðungarmál sem ég man eftir að hafa séð frá nokkurri ríkisstjórn. Þessi ríkisstjórn leggur ekkert upp úr að halda aftur af verðbólgu í landinu. Hún leggur ekkert upp úr því að eiga góð samskipti við aðila vinnumarkaðarins. Hún lofar bara.

Úr þessum ræðustól var lofað 21. desember sl. að lækkuð yrðu gjöld sem þá höfðu verið hækkuð þó að sveitarfélögin í landinu, undir forustu Reykjavíkurborgar, hefðu gengið fram með góðu fordæmi og viljað frysta gjaldskrár. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin treysti sér ekki til þess. Gott og vel. Loforð ríkisstjórnarinnar var lækkun, að lækka gjöldin um 1% yfir allt árið. Síðan er málið látið danka í ríkisstjórn, það er ekki hirt um að koma því á dagskrá þingsins, það er ekki hirt um að afgreiða það með hraði úr nefnd og við stöndum núna frammi fyrir því að greiða atkvæði um það í 2. umr. hér þegar vel er liðið á maímánuð og breytingartillaga stjórnarmeirihlutans felur í sér að lækkunin verði bara látin gilda í hálft ár. (Forseti hringir.) Stjórnarmeirihlutinn hefur ekki döngun í sér (Forseti hringir.) að láta lækkunina nema 2% þannig að (Forseti hringir.) kjarabæturnar skili sér til fólks, nei, (Forseti hringir.) hér eru tafirnar látna bitna (Forseti hringir.) á almenningi í landinu.