143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum að greiða atkvæði um gjaldskrárlækkanir. Við skulum halda því til haga að þessi gjöld voru öll hækkuð um 3% fyrr á þessu kjörtímabili þegar ríkisstjórnin tók við. Nú á að draga hækkunina til baka um 1 prósentustig. Þetta er því ekki lækkun þegar öllu er á botninn hvolft. Það er farið til baka, stigið skref í rétta átt hvað þetta varðar.

Í öðru lagi er þetta ekki að frumkvæði ríkisstjórnarinnar vegna þess að þetta er nokkuð sem ríkisstjórnin gaf loforð um að gera til að lækka verðbólguþrýstinginn um 0,08% svo að kjarasamningar mundu nást milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins eru ánægð með þessa niðurstöðu og þessa lendingu en ASÍ er það ekki. ASÍ finnst ekki uppfyllt það loforð sem ríkisstjórnin gaf. Höldum því til haga.

Píratar munu sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.