143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

vextir og verðtrygging.

402. mál
[11:48]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp efnahags- og viðskiptanefndar um að lengja fyrningarfrest í lögum sem eru nr. 151/2010, og hafa löngum verið kölluð Árna Páls-lögin, eins og fram kom í máli hv. Árna Páls Árnasonar. Hv. þingmaður sagði að það gleddi hann að þessi breyting á frumvarpinu væri komin fram vegna þess að það væri eina breytingin sem Alþingi hefði þá gert á þeim lögum. En ég held að hv. þingmanni hafi láðst að nefna það jafnframt að Hæstiréttur ógilti lögin þannig að Alþingi gat þá ekki breytt fleiri þáttum en þessum. Hvað um það.

Virðulegur forseti. Hér er verið að lengja í fyrningarfresti vegna þess m.a. að hann er ekki liðinn, þess vegna er það mögulegt fyrir löggjafann að grípa inn í. Í nefndarálitinu stendur, og það er rétt, að ég var fjarverandi við afgreiðslu málsins en sit í nefndinni og því vildi ég koma hér og segja álit mitt á þessu. Ég er hjartanlega sammála, ég tel að hagsmunir þeirra sem skulda sé hér virtur og að þeim sé gefinn lengri frestur til þess að fá og fara í það uppgjör sem sum fjármálafyrirtæki eru enn í og hafa sum jafnvel dregið lappirnar gagnvart því, án þess að ég nefni nokkurt þeirra hér á nafn.

Að því sögðu, virðulegur forseti, legg ég til, eins greint er frá í nefndarálitinu, að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.