143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[11:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hyggst nú ekki lengja þessa umræðu, en vil bara ítreka hér að það skiptir verulegu máli að um er að ræða tímabundið samkomulag. Verið er að framlengja það þannig að það gildi áfram til áramóta, en heildarendurskoðun stendur yfir. Ég tel mjög nauðsynlegt að í þeirri heildarendurskoðun verði tekið tillit til þess að höfuðborgin hefur sérstakar skyldur og sérstakt hlutverk í þessu. Þetta leggst af meiri þunga, held ég að megi fullyrða, á höfuðborgina en önnur sveitarfélög, til dæmis vegna þess að hér er í boði kennsla sem ekki er í boði annars staðar. Þess vegna flytur fólk kannski frekar til Reykjavíkur vegna þess að þar er framboð á kennslu sem ekki er hægt að finna annars staðar. Einnig má líka segja að þegar fólk kemur í framhaldsnám í háskóla, t.d. í Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík eða hvar sem það er, sækir það kannski áfram framhaldsnám í tónlist, meðfram öðru námi.

Ég vil leggja áherslu á það hér, virðulegur forseti, að ég tel mjög nauðsynlegt að þegar þetta samkomulag verður endurskoðað verði tekið sérstakt tillit til Reykjavíkur, til höfuðborgarinnar, í þessu sambandi. Ég veit og við vitum það öll að auðvitað vill höfuðborgin eins og önnur sveitarfélög styðja þetta og leggja sitt fram, en það verður líka að taka tillit til þess að það leggst meira á Reykjavík í þessu atriði en á önnur sveitarfélög.

Það var bara þetta sem ég vildi vekja athygli á við þetta tækifæri.