143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

færsla eftirlits með rafföngum til Mannvirkjastofnunar.

213. mál
[11:56]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allrar allsherjar- og menntamálanefndar sem flutti málið í sameiningu og hefur því rætt það mikið og farið í gegnum það vel og vandlega.

Með frumvarpinu er lagt til að sá hluti af markaðseftirliti raffanga sem er undir eftirliti og forræði Neytendastofu verði færður til Mannvirkjastofnunar þannig að forræði rafmagnsöryggismála verði hjá einni stofnun.

Nefndin fór yfir allar þær athugasemdir sem bárust, þá helst það sem Neytendastofa sjálf hafði að segja um málið, en annars voru allar aðrar umsagnir jákvæðar og mikil sátt um að þetta væri til bóta.

Farið var yfir þessar athugasemdir og nefndin bendir á að á Norðurlöndunum eru öll rafmagnsöryggismál á hendi einnar og sömu stofnunarinnar, þar með talið markaðseftirlit með öllum rafföngum. Hvergi á Norðurlöndunum er markaðseftirlit raffanga á forræði stofnunar sem fer með neytendamál, enda er rafmagnsöryggi tæknilega sérhæfður málaflokkur.

Það er því álit nefndarinnar að góð þekking og reynsla sé til staðar hjá Mannvirkjastofnun til þess að sinna markaðseftirliti með rafmagnsöryggismálum í heild sinni, sér í lagi vegna smæðar íslenska markaðarins.

Þá er það álit nefndarinnar að það sé hagkvæmara, skilvirkara og öruggara í alla staði að hafa rafmagnsöryggismál á einni hendi. Einnig er mikilvægt að stjórnsýsla sé eins skilvirk og kostur er og leitast skuli við að koma í veg fyrir tvíverknað, en tvöfalt eftirlit getur haft í för með sér aukið flækjustig og kostnað fyrir eftirlitsskylda aðila.

Þetta er það sem málið snýst um, mjög gott mál og ánægjulegt að við séum að halda hér og nú áfram með það.

Það eru aðeins tvær breytingar sem nefndin leggur til. Önnur er lagatæknilegs eðlis og hitt er að gildistímanum er breytt í 1. september.

Að álitinu stendur öll allsherjar- og menntamálanefnd, Unnur Brá Konráðsdóttir, sá sem hér stendur, Vilhjálmur Árnason, Páll Valur Björnsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Svandís Svavarsdóttir.