143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.

268. mál
[12:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð og málnotkunar minnar. Eins og ég sagði í upphafi getum við gert margt sem kostar ekkert til að bæta og efla íslenska tungu. Það að vanda sig er eitt af því og er ekki vanþörf á því. Við þingmenn eigum það til að festast í alls konar klisjum og tuggum án þess að taka eftir því nema við séum mjög meðvituð um það. Ég held að þetta sé eilífðarverkefni.

Hitt er svo rétt að vandinn er að háskólasamfélagið er alþjóðlegs eðlis. Við erum í miklum alþjóðlegum samskiptum og þar færist það í vöxt að enska tungumálið sé notað í samskiptum manna á milli. Ég þekki það líka frá Norðurlöndunum, þar færist í vöxt að grunnnámskeið séu kennd á ensku, í Kaupmannahafnarháskóla svo dæmi sé tekið, í fögum sem eiga ekkert sérstaklega skylt við ensku.

Eins og ég nefndi áðan varð mikil umræða innan háskólanna. Ég held að það sé full ástæða til að kalla eftir upplýsingum frá hæstv. menntamálaráðherra um það hvernig þessu er nú háttað, hvort einhver breyting hafi orðið eftir að háskólar settu sér málstefnu, hvort menn hafi dregið úr kennslu á ensku, sérstaklega eins og ég segi í námskeiðum þar sem jafnvel ekki nokkur maður hefur ekki íslensku að móðurmáli. Þegar við ræddum þetta á vettvangi og með háskólunum voru þess jafnvel dæmi að íslenskur kennari stautaði á ensku fyrir framan nemendur sem síðan komu með fyrirspurnir á brogaðri ensku. Enginn gat tjáð sig þannig að nokkur sómi væri að.

Ég vil nota tækifærið og rifja upp ágæta grein Þorsteins Gylfasonar, „Að hugsa á íslensku“, sem lýtur nákvæmlega að því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi. Það er svo mikilvægt að rækta íðorðastarfið og tryggja að fræðafólkið okkar haldi áfram að hugsa á íslensku og hverfi ekki alveg inn í hinn alþjóðlega heim ef við ætlum að búa á þessu landi og halda áfram að rækta vísinda- og fræðastarf. (Forseti hringir.) Þetta gefur tilefni til að við fáum frekari upplýsingar um þetta mál.