143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

lyfjalög.

222. mál
[13:32]
Horfa

Frsm. velfn. (Elín Hirst) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum. Málið varðar samhliða innflutning lyfja og gjaldtökuheimild.

Tilefni frumvarpsins er annars vegar athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA þess efnis að ákvæði lyfjalaga um samhliða innflutning lyfja samræmist ekki þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum. Núgildandi skilyrði lyfjalaga um útgáfu markaðsleyfis vegna samhliða innflutnings kann að brjóta gegn ákvæðum EES-samningsins og því þarf að samræma íslenskan lagatexta ákvæðum EES.

Hitt atriðið er breyting á 5. mgr. 3. gr. lyfjalaga sem gjaldtökuheimild Lyfjastofnunar styðst við. Fæðubótarefni hafa nú verið skilgreind sem matvæli og felld undir gildissvið matvælalaga en ef fæðubótarefni eru talin innihalda lyf eða lyfjavirk efni skulu heilbrigðisnefndir sveitarfélaga taka á málinu og ákvæði um að banna sölu slíkra fæðubótarefna eftir að varan hefur verið flokkuð hjá Lyfjastofnun.

Frumvarp um breytingu á lyfjalögum á því að endurspegla áðurnefnda starfshætti þegar kemur að gjaldtökuheimildum Lyfjastofnunar.

Nefndin gerir eina breytingartillögu á efnismálslið a-liðar 1. gr. sem gerir innihald hennar skýrara. Undir nefndarálitið rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður, Elín Hirst framsögumaður, Þórunn Egilsdóttir, varaformaður velferðarnefndar, Heiða Kristín Helgadóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðbjartur Hannesson, Páll Jóhann Pálsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.