143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[13:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það liggur við að ég fyrirverði mig fyrir að vera á þessu nefndaráliti án fyrirvara. Ég beit þó á jaxlinn og lét mig hafa það. Ástæðan fyrir því að mér þótti það nokkuð umhendis að taka undir þennan árlega samning, aldrei þessu vant, er sá viðurgjörningur sem þar er búinn Færeyingum.

Eins og kom fram í máli hv. framsögumanns er þessi samningur frábrugðinn öllum fyrri samningum síðan 1991 eða 1992 að því leyti til að það er ekki fortakslaust kveðið á um það að Færeyingar fái að veiða innan efnahagslögsögu okkar tiltekinn part af leyfilegum heildarafla af loðnu eins og áður. Í hverri einustu tillögu sem hefur verið lögð til staðfestingar fyrir Alþingi síðan Færeyingar voru grátt leiknir af þungum efnahagslegum búsifjum og Íslendingar ákváðu að gefa þeim 30 þús. tonn, miðað við 500 þús. tonna heildarafla, þá hefur þetta staðið eins og stafur á bók í hverjum einasta samningi. Í fyrsta skipti liggur nú fyrir samningur þar sem áhöld eru um þetta.

Ég upplýsti þann grun minn í fyrri umræðu um málið að það stæði fyrir dyrum að taka þetta af Færeyingum. Hæstv. ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, sem mælti fyrir málinu, var nokkra stund að fóta sig í málinu en undir lok umræðunnar lýsti hann því þó yfir að það stæði ekki til. Hann gat ekki á þeim tímapunkti gefið neinar sérstakar skýringar á því af hverju þetta er öðruvísi en áður.

Í umfjöllun nefndarinnar kom meðal annars fram að fundur Íslendinga og Færeyinga hefði verið venju fremur seint og horfur varðandi loðnuvertíð óvanalega slæmar og þess vegna hefði verið ákveðið að ráða þessu máli til lykta á fundi síðar á árinu. Í samningnum sjálfum kemur svo fram að það skuli ekki gert síðar en á fundi í desember.

Ég féllst hins vegar á þetta nefndarálit og skrifa undir það fyrirvaralaust vegna þess að þar er tekið skýrt fram að ekki sé hægt af hálfu íslenskra stjórnvalda að breyta þessu fyrirkomulagi og hverfa frá því að standa við fyrri orð okkar gagnvart Færeyingum nema sú ákvörðun verði tekin í samráði við nefndina. Ég hef áður sagt að þó að Færeyingar séu lítil þjóð eru þeir okkar bestu grannar og þó að kunni að hafa slest upp á vináttuna varðandi makrílmálin fyrr á þessu ári, þá yrðu það stórpólitísk tíðindi í samstarfi Íslands og Færeyja ef horfið yrði frá því að þeir fengju að veiða sín 30 þús. tonn sem þeir hafa haft heimild til síðan í byrjun tíunda áratugarins.

Nú vil ég segja skýrt að ég er reiðubúinn til að hlusta á rök í þessu máli. Vissulega hefur verið bent á það, eins og ég rakti hér, að stofninn er í verra ásigkomulagi en oft áður. Hann er þó ekki í verstu stöðu sem hann hefur verið í frá árinu 1990, það kom líka fram í nefndinni. Þegar þessi gjöf Íslendinga var færð Færeyingum var horft til þess að hugsanlega kynnu aðstæður í hafinu að verða öðruvísi einhver árin en var þegar örlætið sló Íslendinga með svona göfugum hætti. Þess vegna var búið um þetta þannig að gert var ráð fyrir 30 þús. tonnum ef heildarafli yrði 500 þús. tonn eða meira, en ella 5% af leyfilegum heildarafla. Í trausti þess að það liggi algjörlega ljóst fyrir að ekki sé búið að taka neina ákvörðun um breytingar á þessu og sömuleiðis að þær verði ekki teknar nema í samráði við utanríkismálanefnd samþykki ég þessa tillögu og er án fyrirvara á nefndarálitinu. En ég undirstrika það að ég tel að ríkisstjórnin hafi ekkert leyfi til þess að ganga frá samningum um þetta mál án þess að ræða fyrir fram við utanríkismálanefnd. Ég skilgreini þetta sem meiri háttar utanríkispólitískt mál vegna þess að samband okkar og Færeyinga er á þeim mælikvarða.

Herra forseti. Þetta eru forsendur mínar fyrir stuðningi við þetta mál.