143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[13:51]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að Færeyingar eru góðir grannar. En nú háttar svo til að loðna hefur hegðað sér með öðrum hætti á liðinni vertíð en oft áður. Sá kafli nefndarálitsins sem fjallar um loðnu tekur einmitt tillit til breyttrar göngu loðnunnar á Íslandsmiðum, að minnsta kosti á síðustu vertíð. Veiðar byrjuðu seint og lítið veiddist og það er náttúrlega ekki hægt að semja um það sem ekki er til.

Þessi tillaga til þingsályktunar og nefndarálitið tekur einmitt tillit til þess að loðnustofninn virðist hafa gengið norðar og vestar í kaldari sjó og ég tek undir allt það sem vel er sagt um granna vora, Færeyinga. Þeir hafa veitt hér um áratugi og verða nú seint sakaðir um rányrkju á Íslandsmiðum. En vegna þeirrar breyttu hegðunar tel ég, og ég ætla aðeins að mæla fyrir mig í þessu máli, að þarna sé eðlilegur fyrirvari um hugsanlegar veiðar úr þessum stofni. Ég held því að tillit hafi verið tekið til allra þeirra sjónarmiða sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson rakti í ræðu sinni, þannig að þrátt fyrir ræðu hv. þingmanns held ég að við alla vega séum sammála. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.