143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:33]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og fram kemur í frumvarpinu er ekki talað um að fækka störfum heldur var það rætt í nefndinni að ekki væri alveg ljóst hvaða verkefni þetta væru og hvernig þetta færi fram og þess vegna var sett inn, í meðferð nefndarinnar, bráðabirgðaákvæði um að forsætisráðuneyti í samvinnu við innanríkisráðuneyti mundi setja af stað verkefnaáætlun til að gengið yrði hreint til verks í þessu og til að leggja áherslu á að þetta skipti miklu máli og til að styrkja þessi embætti.

Ég deili ekki sömu áhyggjum og hv. þingmaður af hrossakaupum og öðru slíku, það hefði alveg verið hægt að fara þá leið að þetta yrði bara ákveðið í ráðuneytinu, en þarna er ákveðið að fara í samráð, að ráðinn verði lögreglustjóri yfir nýju embætti, hann í samvinnu við heimafólk, og landshlutasamtökin — áður átti það að vera Samband íslenskra sveitarfélaga, þarna er því breytt — sem þekkja aðstæður á hverjum stað, þannig að þetta yrði gert á faglegan hátt með nærsamfélaginu. Ég bara tel þetta mjög færa leið og sé ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því.

Um þetta var mjög gott samstarf. Sumar umsagnir voru kannski sendar áður en kynningarfundirnir fóru fram. Auðvitað er fólk sem hefur starfað úti á landi og þekkir reynsluna hrætt og sporin hafa vissulega hrætt. En eftir að hafa fengið kynningu frá ráðuneytinu og fyrir nefndinni, hvernig þetta var hugsað, minnkuðu þær áhyggjur töluvert. Við gátum því ekki fundið neina andstöðu við þetta og fólk bara bíður eftir að þetta komist til framkvæmda af því það hefur trú á verkefninu.