143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:38]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem þetta snýst um er hvernig verður unnið úr þessu. Nú hefur frumvarpið tekið vissum breytingum í meðförum nefndarinnar. Ég tel ekki heppilegt að búið hafi verið að ákveða eitthvað fyrir fram, og svo hefði þurft að breyta því. Þetta mál hefur verið til umræðu meðal framkvæmdarvaldsins og á Alþingi í 20 ár. Því er hægt að segja að þetta sé svolítið mikið rætt og unnið. Á meðan hefur framþróun í lögreglunni verið stopp. Fólk veit ekki hvernig á að þróa embættin og það er mikil stöðnun á mörgum stöðum, af því að fólk veit ekki hver næstu skrefin verða. Þess vegna er mikilvægt að fá þennan skýra ramma sem þessi lög segja til um, hvernig við sjáum fyrir okkur að umdæmin séu og hver sé grunnur þeirra. Hver útfærsla heima í héraði er verður bara að vera eftir hverju héraði fyrir sig. Við sáum það skýrt í þessari vinnu hvað þetta voru mismunandi aðstæður á mörgum stöðum. Þannig ég tel okkur vera á hárréttri leið og í eins miklu samráði og hægt er að hafa um þetta mál.

Aðeins varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á í fyrra andsvari, þ.e. varðandi eftirlitið með veitingahúsunum. Þar er verið að aðskilja framkvæmdarvaldið og eftirlitið eða framkvæmdina og stjórnsýsluna, þannig að sá sem gefur út leyfin og sér um það sjái ekki einnig um eftirlitið. Þarna er verið að draga skýrar línur. Það er gagnsærri og skilvirkari stjórnsýsla að hafa þetta svona, hafa eftirlitið á einum stað og leyfaframkvæmd og leyfisveitingar á öðrum stað. Þetta er alveg eðlilegt og er eins og það á að vera, eins og er líka verið að skoða innan Samgöngustofu, að þar sé skýrt á milli hver gefur til dæmis út leyfi varðandi skip og ökutæki og annað slíkt, (Forseti hringir.) svo hefur lögreglan eftirlit með því og Landhelgisgæslan.