143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:47]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin var einkum í þessari umferð: Hvað ræður för innan umdæmis?

Það er í sjálfu sér ekki augljóst, það er ekkert eitt sem ræður för. Það kom hins vegar fram, kannski þvert á það sem þingmaðurinn kom inn á, að eðlilegast væri að lögreglustjórinn væri þar sem fjölmennið væri mest. Hins vegar gæti sýslumaðurinn verið staðsettur hvar sem er. Í sumum umdæmum liggur þetta í augum uppi, í öðrum umdæmum þarf að fara fram umræða um það. Maður getur til dæmis sagt að á Norðurlandi vestra sé tiltölulega augljóst hvernig staðan verður en á Norðurlandi eystra sé ég fyrir mér að það þurfi að fara fram ákveðin umræða um hvar sýslumannsembættið verður.

Það er allt í lagi að nefna það. Erum við að tala um Fjallabyggð eða Húsavík? Þetta hefur ekki verið ákveðið. Það er bara allt í lagi að þessi umræða komi hér fram.

Geta stöðvar stækkað og minnkað? Það er ekki gert ráð fyrir því um leið og breytingin tekur gildi. Hins vegar hlýtur það að geta orðið hluti af áframhaldandi þróun að stöðvar stækki eða minnki í takt við verkefnið eða mannauðinn sem er til staðar á hverjum stað. Í sjálfu sér gæti ég séð fyrir mér að það væri hægt að auglýsa störf óháð staðsetningu.

Svo kom þingmaðurinn inn á mikilvægi þess að löglærðir fulltrúar yrðu á starfsstöðvum og ég tek heils hugar undir það.