143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mér sýnist komið að lokum umræðu um þessi tvö stóru mál sem eru frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði og frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum. Við höfum rætt þetta töluvert hér að undanförnu en ekki síður var þetta gríðarlega vel unnið í nefndinni. Ég vil, líkt og ég gerði í fyrri ræðu minni, þakka sérstaklega fyrir þá vinnu en ekki síður þá nálgun sem birtist í framsetningu frumvarpsins og framsögu hæstv. ráðherra á sínum tíma þar sem mikil áhersla var lögð á að halda til haga þeirri vinnu sem þegar hafði verið unnin. Það er ekki endilega alltaf sú nálgun sem höfð er að leiðarljósi í þinginu, því miður, þegar við erum að vinna stór mál og tilhneigingin er gjarnan sú að við sláum striki yfir það sem hefur áður verið gert og viljum hefja vegferðina að nýju. Það ber oftar en ekki keim af gamaldags pólitík sem snýst um togstreitu og svarthvíta hugsun.

Hér er um að ræða viðfangsefni sem rekur sig marga áratugi aftur í tímann. Menn hafa unnið að þessu lengi og þegar þar er komið sögu að þeir sem verkin vinna eru beinlínis farnir að kalla eftir því að við náum til lands held ég að það sé örugglega komið að því að höggva á hnútinn.

Í vinnu nefndarinnar komu til skoðunar mjög mörg sjónarmið og áhyggjuefni. Mörg þeirra hafa verið rædd og reifuð í ræðum og andsvörum og sum þeirra sem hafa verið til umræðu hér í dag, þ.e. þegar komið er að því að undirbúa og koma til framkvæmda þeim breytingum sem þessi lög mæla fyrir um, má auðvitað að sumu leyti segja að þar sleppi því sem er seilingarfjarlægð okkar hér, löggjafans. Þó er það vissulega nokkuð misjafnt hvernig við búum að jafnaði um löggjöf hvað þetta varðar. Stundum viljum við skrifa mjög skýrt hvernig eigi að framkvæma lögin, sérstaklega þegar um er að ræða stofnanabreytingar. Stundum er ráðherranum í sjálfsvald sett eða falið í raun og veru að framkvæma lögin. Stundum er framkvæmd laganna sett í breiðan farveg þar sem menn freista þess fyrir fram að ná sem mestri sátt.

Það er sá máti sem hér er hafður á og mér finnst það til fyrirmyndar. Mér finnst það máti sem við verðum að hafa að leiðarljósi þegar svona stór verkefni eru í gangi, ekki síst einmitt vegna þeirra álitamála sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir hefur nefnt hér. Ýmis áhyggjuefni hafa komið upp við 1. umr. málsins, í nefndinni, í ýmsum umsögnum og síðan þeim varnaðarorðum sem fram koma bæði í nefndaráliti og í breytingartillögum.

Það er afar mikilvægt þegar um svona stóra breytingu er að ræða að hún komi standandi niður, að breytingin verði ekki fyrir skakkaföllum daginn eftir að lögin eru kláruð frá Alþingi. Þess vegna er ég sannfærð um að þessi leið sem snýst um að setja í gang verkefnisstjórn til að halda utan um og leiða breytinguna áfram sé sú besta. Hún er ekki örugg, engin leið er 100% örugg, en hún er að minnsta kosti sett fram í samráði við þá sem best þekkja til. Hún er sett fram í samráði við það embætti sem um ræðir, sveitarfélögin, landshlutasamtökin, samtök sveitarfélaga, ráðuneytið og alla þá aðila sem þurfa að koma breytingum til framkvæmda en ekki síður alla þá aðila sem breytingarnar varða mest.

Ég held að áhyggjuefnin yfirgefi okkur ekki, ég held að við getum aldrei fundið leið til að koma í veg fyrir að í næstu skrefum kunni að koma upp álitamál, en þetta er sú þverpólitíska og faglega leið sem nefndin sammæltist um að fara í góðu samráði við þá aðila sem hér eru nefndir til að freista þess að framkvæmdin verði sem farsælust.

Ég vænti þess að allsherjar- og menntamálanefnd verði áhugasöm um það hvernig tekst til. Þetta er eitt af okkar stærstu málum í vetur, að skjalasöfnunum ógleymdum. Ég held að ég deili því með öllum félögum mínum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að við erum mjög áhugasöm um að sjá hvernig framkvæmdinni vindur síðan fram. Ég vænti þess að við munum fylgja því eftir af trúmennsku og fylgjast vel með framkvæmdinni á vegum og forsendum ráðuneytisins og væntanlega líka vera í sambandi við landshlutasamtökin. Ég held að á þessum tímapunkti geti ég ekki gert annað en að láta bara mínar bestu óskir fylgja þessu verkefni.