143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna hér. Bara til að greina aðeins frá því þá fengum við þó nokkuð marga gesti á fund nefndarinnar. Almennt eru menn ágætlega meðvitaðir um þetta, þ.e. þeir sem eru í framkvæmdunum. Engu að síður eru brotalamir og það væri mjög mikil styrking í því ef við hefðum þessar upplýsingar á einum stað og værum líka með rannsóknir og aðgengi að rannsóknum á einum stað.

Það var líka talað um að upplýsingar um þetta vandamál hér á landi væru á víð og dreif og ef við mundum bæta úr því kæmist ýmislegt annað hugsanlega sjálfkrafa í betra horf. Þess vegna leggjum við mjög mikla áherslu á það. Það þarf að bæta fræðslu. Hún er að mörgu leyti ágæt en það má gera hana enn betri.

Það sem er líka áhugavert í þessari umræðu og þessari umfjöllun er að þetta snýst líka um umgengni. Þetta snýst ekki bara um hvernig húsnæði er byggt heldur getur umgengni líka valdið sveppi. Þess vegna skiptir máli að fræða húseigendur og fjölskyldur í landinu um það hvað þær geta gert til þess að koma í veg fyrir að svona gerist hjá þeim. Fræðslan þarf því að vera á mjög mörgum sviðum.

Síðan fannst mér mjög áhugavert í þessari umfjöllun að fólk virðist býsna meðvitað um möguleikann á þessu vandamáli. Heilbrigðiseftirlitið, Náttúrufræðistofnun og fleiri fá þó nokkuð mikið af fyrirspurnum um þetta, en það er ekki nema lítill hluti þar sem raunverulega er um myglusvepp að ræða, sem er jákvætt. Það sýnir okkur að fólk er meðvitað um að þetta gæti verið vandamál á heimilinu og virðist sækja sér upplýsingar um það og leiðsögn um hvort svo sé. Það er því jákvætt og ég held að umræðan sem hefur farið fram í tengslum við þau ljótu mál sem hafa komið upp hjálpi og líka að hér sé verið að halda þessu lifandi í þinginu.

Yfir það heila mundi ég segja að starfshópurinn þyrfti að fara vandlega yfir þessi tryggingamál. Hann þarf að fara vandlega yfir fræðsluþáttinn og þá er það ekki bara fræðsla byggingaraðila eða þeirra sem eru að læra til þeirrar iðnar heldur líka almennings í landinu. Síðan er atriðið að koma upplýsingum um þetta saman, tilvik, fræðsluefni og rannsóknir, þannig að þetta verði allt sett á einn aðgengilegan stað. Ég held að þetta þrennt sé lykilatriði í málinu og framhaldinu. Þessar upplýsingar eru allar til. Við eigum fullt af fólki sem kann þetta og þekkir þetta vel. Þess vegna held ég að við getum alveg unnið þetta hratt og ef starfshópurinn er rétt saman settur ætti hann að geta unnið þetta mál mjög hratt. Ég hef fulla trú á því að við eigum eftir að sjá einhverjar niðurstöður upp úr áramótum ef ráðherrann fer beint í það að skipa starfshópinn.