143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

stuðningur við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.

88. mál
[17:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir framsögu hennar með málinu. Það er rétt sem fram kom í máli hennar að málið hefur verið til umfjöllunar í utanríkismálanefnd af og til frá því að það var lagt fram hér á haustþingi og hefur verið mjög góður samhljómur innan nefndarinnar um afgreiðslu þess. Sú breyting sem lögð er til í framhaldsnefndaráliti er, eins og hv. þingmaður gerði grein fyrir, fyrst og fremst árétting á því að við tökum undir þær ályktanir sem samþykktar hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, bæði öryggisráðsins og allsherjarþingsins, og íslensk stjórnvöld hafa stutt. Hér er því í sjálfu sér ekki um nýja stefnumörkun að ræða en hins vegar er um að ræða áréttingu og ítrekun á mikilvægum skilaboðum að þessu leyti.

Ég vildi geta þess við þessa umræðu að auk þeirra formlegu nefndarfunda sem haldnir hafa verið um þetta mál hafa átt sér stað ákveðin samskipti við sendiráð Marokkós í Ósló sem hefur með Ísland að gera. Sendiherra Marokkós hefur tvisvar sinnum átt fundi með mönnum úr utanríkismálanefnd þó að það hafi ekki verið á vettvangi nefndarinnar sjálfrar. Jafnframt komu hingað þingmenn frá Marokkó nú í vor sem gerðu grein fyrir sjónarmiðum í þessum efnum og við töldum sjálfsagt, utanríkismálanefndarmenn sem tóku þátt í þessum fundum, að hlusta á þau sjónarmið þó að menn væru kannski ekki sammála um alla hluti.

Jafnframt vil ég geta þess að forsvarsmenn, eða fyrst og fremst formaður félagsins Ísland–Marokkó hefur verið í sambandi við ýmsa þingmenn og þar á meðal þann er hér stendur vegna þessa máls til að koma sjónarmiðum á framfæri. Við erum þakklát fyrir alla upplýsingagjöf og ábendingar og athugasemdir að þessu leyti þó að menn séu kannski ekki sammála um alla hluti, eins og endurspeglaðist á ákveðnum fundum sem haldnir voru. Hins vegar held ég að af hálfu utanríkismálanefndar allrar standi fullur vilji til þess að þessi mál fái framgang í samræmi við efni tillögunnar, að utanríkisráðherra og íslensk stjórnvöld almennt komi þeim skilaboðum skýrt á framfæri sem í þessu felast. Við munum auðvitað halda áfram að vinna á þeim grundvelli og það er mín persónulega skoðun að æskilegt sé að efla samskipti við ríki á borð við Marokkó þó að okkur kunni að greina á um áhersluatriði í þessu sambandi. Samskipti og fundir af þessu tagi held ég að geti ekki verið nema til góðs og geti orðið til þess að skila auknum gagnkvæmum skilningi.