143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

stuðningur við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.

88. mál
[17:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil með fáeinum orðum fagna því að utanríkismálanefnd hefur í góðri samstöðu fjallað um þetta mál og leggur til afgreiðslu þess og samþykki á þessu þingi. Það er ánægjulegt að það fái þó að fljóta með hér í önnum dagsins á síðustu þingdögunum ef svo verður. Þetta ágæta mál hafði okkar góði þingmaður Steinunn Þóra Árnadóttir frumkvæði að að flytja hér, það var vonum seinna að segja má að menn tækju upp málefni Vestur-Sahara og Sahrawi-þjóðarinnar. Miðað við forsögu okkar Íslendinga í þessum málum og það sem við höfum þó að okkar litla leyti reynt að leggja til mála, á það mjög vel heima að við styðjum með slíkum hætti rétt íbúanna á þessu svæði, þjóðarinnar sem þarna er, til þess að ákveða sjálf framtíð sína. Benda má á hvernig málefni Austur-Tímor voru hér tekin fyrir á sínum tíma og má nefna frumkvæði Íslendinga í sambandi við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og stuðning við Palestínumenn í því samhengi.

Sjálfur kom ég fyrst að þessum málum þegar ég sótti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hið fyrra sinni fyrir margt löngu og varð þess þá áskynja að þetta var árlegur liður í umfjöllun bæði öryggisráðsins og allsherjarþingsins og viðeigandi nefndar innan þingsins. Ég átti þá þegar erfitt með að skilja hvernig það gat gerst að í þessu máli var alþjóðasamfélagið tiltölulega sammála og fáir mótmæltu því að staðan væri sú sem raun ber vitni, að þarna væri svæði sem nyti ekki sjálfsákvörðunarréttar, hefði verið meinað það. En eins og kunnugt er var strax í árdaga þessara mála, fljótlega eftir að Marokkó hernam landið, ákveðið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að íbúarnir þarna ættu rétt á því að kjósa um framtíð sína, bæði þeir sem áfram byggju í landinu og hinir sem væru í flóttamannabúðum í nágrenninu en hefðu átt þar heima. En það undarlega er að tekist hefur að tefja fyrir því eða koma í veg fyrir að slíkar kosningar færu fram í um tvo áratugi eða svo. Og maður er dálítið hugsi þegar maður stendur frammi fyrir máttleysi alþjóðasamfélagsins og Sameinuðu þjóðanna í tilvikum sem þessum, að eitt eða fáein ríki geti komið í veg fyrir að jafn sjálfsagður hlutur og þetta er nái fram að ganga.

Við skulum því trúa því að það muni um allt í þessum efnum. Til marks um það er það sem formaður utanríkismálanefndar upplýsti hér réttilega um í ræðustóli áðan, að við erum þó ekki ómerkilegri en það, Íslendingar, þegar við tökum þessi mál til umfjöllunar að Marokkómenn hafa fyrir því að senda hingað þingmannasendinefnd og sendiherrann lætur sig þetta ítrekað varða, sem endurspeglar og birtir hina hliðina á myndinni, að Marokkó er alls staðar á varðbergi þar sem reynt er að leggja málefnum Vestur-Sahara lið. Þess þá heldur þurfum við að passa vel upp á að þetta mál liggi ekki í láginni. Mér fyndist alveg í samræmi við það, sem við höfum reynt að gera við fleiri aðstæður, að utanríkisráðherra okkar, eða hugsanlega einhvers konar sendinefnd með fulltrúum úr utanríkismálanefnd og utanríkisráðherra í broddi fylkingar, undirbyggi nú heimsókn til Vestur-Sahara, svona svipað og þegar utanríkisráðherra fór til Úkraínu á dögunum og fyrrum utanríkisráðherra fór í nafntogaða ferð til Gaza.

Ég vona því að samþykkt þessarar tillögu, ánægjuleg sem hún er, sé nú ekki bara einhver endapunktur heldur frekar upphafið að því að við látum okkur þessi mál nú varða á komandi árum með ýmsum hætti. Ég hyggst fyrir mitt litla leyti reyna að þrýsta á um að svo verði gert þannig að hér verði ekki bara orðin tóm látin duga heldur fylgjum við því nú með virkum hætti eftir að við ætlum að taka upp stuðning við þessa þjóð sem þarna hefur svo sorglega og svo lengi verið svipt þeim sjálfsagða rétti að ákveða sín eigin örlög og fá að búa í sínu landi og ráða yfir því. Það ættu allir að geta sameinast um að vilja gera.