143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

70. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. velfn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu sem flutt var af hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og fleirum. Framsögumaður í málinu fyrir hv. velferðarnefnd var hv. þm. Björt Ólafsdóttir, en vegna fjarveru hennar flyt ég hér niðurstöðu nefndarinnar sem var samhljóða.

Fyrir nefndina kom fjöldi fulltrúa stofnana sem fjölluðu um málið, en í heildina felur þessi þingsályktunartillaga í sér að innanríkisráðherra verði falið að skipa þriggja manna starfshóp sem skili tillögum um það hvernig útfæra megi jafnt búsetuform barna sem búa jafnt og til skiptis hjá báðum foreldrum sínum á tveimur heimilum. Markmið starfshópsins verði að útfæra leiðir til að eyða þeim mikla aðstöðumun sem er á heimilum þegar foreldrar búa ekki saman en ákveða að ala börnin sín upp saman. Í því skyni skuli starfshópurinn taka afstöðu til þess hvort taka skuli upp kerfi sem heimilar börnum að hafa tvöfalt lögheimili eða hvort annað fyrirkomulag jafnrar búsetu henti betur. Samkvæmt tillögunni er ætlunin að hópurinn skili af sér niðurstöðum fyrir árslok 2014 og að ráðherra leggi fram frumvarp byggt á niðurstöðum starfshópsins eigi síðar en á haustþingi 2015.

Gestir og umsagnaraðilar sem komu fyrir hv. velferðarnefnd eru almennt jákvæðir í garð tillögunnar sem felur fyrst og fremst í sér könnun á þeim aðstöðumun sem kann að vera milli foreldra sem fara sameiginlega með forsjá yfir barni sínu. Nefndin bendir á að forsenda þess að hægt sé að leggja fram tillögur að breyttu lagaumhverfi sé að kannað sé ítarlega á hvaða sviðum er um aðstöðumun að ræða og í hverju hann felist. Ljóst er að ýmis réttindi fylgja ávallt lögheimili barns og má þar sem dæmi nefna ýmsa félagslega aðstoð almannatryggingakerfisins sem og félagslega þjónustu við fötluð börn en þau njóta slíkrar þjónustu aðeins á lögheimili sínu. Þá er það foreldri sem barn hefur lögheimili hjá skráð í opinberri skráningu sem einstætt foreldri þó að forsjáin sé sameiginleg og barnið búi til jafns hjá báðum foreldrum. Nefndin leggur þó áherslu á að vinna sem þessi verður ávallt að hafa hagsmuni barnsins í fyrirrúmi. Við mat á því hvort breytinga sé þörf á því kerfi sem við lýði er í dag verður að horfa til þess hvort þær hafi jákvæð áhrif á hagsmuni barnsins og að hvaða leyti. Þótt jöfn staða beggja foreldra eigi eðli málsins samkvæmt að skila sér í bættum hag barna þarf það að vera hafið yfir vafa ef gera á grundvallarbreytingar á lagaumhverfinu.

Þarna las ég upp úr nefndarálitinu sem nefndin varð sammála um og hægt að fylgja því eftir með ýmsum orðum. Ég ætla að leyfa mér að halda áfram:

Að mati nefndarinnar þarf verkefni starfshópsins að vera rýmra en fram kemur í tillögugreininni. Ekki sé nægilegt að horfa aðeins til lögheimilisskráningar eða annars konar búsetuskráningar heldur þurfi að horfa á allt stuðningsnet almannatryggingakerfisins fyrir foreldra. Þróunin síðustu ár hefur verið í þá átt að flestir foreldrar velja að fara sameiginlega með forsjá barna við skilnað og börn búa oft til jafns hjá báðum foreldrum. Nefndin leggur því til breytingu á tillögugreininni þannig að starfshópurinn verði stærri, verkefni hans rýmra, að málinu komi ekki einungis innanríkisráðherra heldur einnig félags- og húsnæðismálaráðherra, tvö ráðuneyti komi sem sagt að málinu, og að ráðherra skili þinginu skýrslu um niðurstöður starfshópsins eigi síðar en 1. mars 2015.

Málið hefur tekið sinn tíma í þinginu og því er mikilvægt að rýmka tímann.

Hv. velferðarnefnd flytur breytingartillögu, í rauninni er breyting á tillögugreininni sem hljóðar þá svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa fimm manna starfshóp sem kanni með hvaða leiðum megi jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna með tilliti til réttinda, skyldna og skráningar sem fylgir lögheimili barns. Markmið starfshópsins verði að útfæra leiðir til að eyða þeim mikla aðstöðumun sem er á heimilum þegar foreldrar sem búa ekki saman ákveða að ala börn sín upp saman á tveimur heimilum. Í því skyni taki hópurinn m.a. afstöðu til þess hvort taka skuli upp kerfi sem heimilar börnum að hafa tvöfalt lögheimili eða hvort annað fyrirkomulag jafnrar búsetu henti betur. Ráðherra skili þinginu skýrslu um niðurstöður starfshópsins eigi síðar en 1. mars 2015.“

Fjarverandi á fundi nefndarinnar þegar þetta var afgreitt voru tveir hv. þingmenn, Þórunn Egilsdóttir og Ásmundur Friðriksson. Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður nefndarinnar, Björt Ólafsdóttir, framsögumaður málsins, Elín Hirst, sá sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Páll Jóhann Pálsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa langt mál um þetta en það er mikilvægt að það sé fjallað um þetta og með hvaða hætti sé hægt að koma til móts við þetta breytta umhverfi. Þetta snertir gríðarlega marga þætti vegna þess að við höfum heyrt það í umfjöllun um þetta mál bæði í nefndinni og áður. Meðan ég var ráðherra komu menn gjarnan með þetta mál en þá voru ýmsar tilætlanir í gangi, m.a. að aðstæður væru skapaðar til að heimili væri nægjanlega stórt til þess að hýsa foreldra á tveimur stöðum. Það mun þá hafa áhrif á hvernig við búum að íbúðamarkaðnum. Það kostar auðvitað meira ef einstaklingar þurfa að stækka húsnæði á tveimur stöðum til að jafna aðstöðu barna. Ég tel það rétta áherslu í þessu nefndaráliti og mikilvægt að það komi fram.

Það kom líka fram í umfjöllun í nefndinni að sjónarhornið sé ávallt barnsins og það sé nálgast með þeim hætti. Meðal annars kom fram það sjónarmið að í mörgum tilfellum yrði jafnvel að gera kröfu á það þegar um væri að ræða skipta búsetu að menn byggju það nálægt hver öðrum að barn þyrfti ekki að skipta um skóla eða vera í tveimur skólum, tveimur leikskólum eða annað slíkt.

Því ber að fagna að þetta skuli vera komið til síðari umr. í þinginu akkúrat í dag. Í dag var ráðstefna um foreldrajafnrétti sem Félag einstæðra foreldra, Félag stjúpfjölskyldna og Samtök meðlagsgreiðenda stóðu sameiginlega að undir yfirskriftinni: Stuðlar kerfið að ágreiningi foreldra? Framfærsla barna sem búa á tveimur heimilum.

Ég átti ekki kost á að vera á þeirri ráðstefnu af því að ég tók að mér að standa vaktina í þinginu, en hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir mætti þar fyrir hönd Samfylkingarinnar, sem sagt formaður nefndarinnar, og ég er spenntur að heyra hvernig ráðstefnan gekk. Ég sé að hér eru komnir í þingsal hv. þingmenn Bjartrar framtíðar sem lögðu þetta mál fram, hafa hugsanlega verið á ráðstefnunni og koma vonandi í ræðustól og segja okkur betur af þeirri umræðu.

Í dag er verið að tala um fimm þingmannamál, sem sagt ekki stjórnarfrumvörp, við eigum eftir að tala fyrir tveimur öðrum, og það er ánægjulegt ef þau öll fara í gegn. Það var vaxandi fjöldi þingmannamála sem fór í gegn á síðasta kjörtímabili og ánægjulegt ef framhald verður á því að vönduð frumvörp sem lögð eru fram, hvort sem er af þingflokkum eða einstökum þingmönnum eða hópum þingmanna, fái vandaða umfjöllun og afgreiðslu í þinginu en verði ekki að víkja fyrir stjórnarfrumvörpum.