143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

skráning upplýsinga um umgengnisforeldra.

71. mál
[17:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við hv. þingmenn drögum ályktanir af ýmsum opinberum gögnum um þetta og hitt en þau eru því miður ekki alltaf rétt, það er ákveðin kerfisvilla í þessum gögnum. Til dæmis má telja að námsmenn sem fá lánað fyrir framfærslu sinni raði sér í neðstu tíund tekjulágra, þ.e. þeir eru yfirleitt með mjög lágar tekjur af því að þeir fá lánað fyrir framfærslu sinni og eru að stunda nám og nú er fjöldinn orðinn það mikill að ég hugsa að þeir fylli upp í lægstu tíund þegar tekjur einstaklinga eru athugaðar. Síðan gerist það líka að þeir fá námslán sem er skuld í skattframtali, en það er engin eign á móti. Auknar tekjur á móti í framtíðinni koma ekki fram sem eign, eftir því sem þjóðin menntar sig meira þeim mun verri verður skuldsetning heimilanna. Fyrir utan það að það skekkir líka Gini-stuðulinn, merkilegt nokk, því að eftir því sem menn mennta sig lengur og eyða stærri hluta af ævinni í menntun, þeim mun lægri tekjur hafa þeir á því tímabili, þeim mun hærri tekjur hafa þeir seinna og þá vex Gini-stuðullinn sem mörgum þykir slæmt að sé hár.

Hér erum við að ræða eitt viðfangsefni í viðbót. Það er það að ákveðinn hópur, aðallega karlmenn, lendir í því að borga meðlög með börnum en eru ekki taldir sem foreldrar þeirra. Nú er það þannig að hjónum er ekkert bannað að eiga þrjú börn á Íslandi og það er heldur ekki bannað fyrir þau sömu hjón að skilja. Yfirleitt gerist það þannig, því miður, að konan fær forræðið fyrir börnunum, það bara er þannig, hvort sem menn eru sáttir við það eða ekki, og karlmaðurinn situr uppi með að borga meðlag með þremur börnum sem getur orðið umtalsvert, um 80 þús. kr. á mánuði ef það er einfalt meðlag, ég er ekki að tala um tvöfalt meðlag sem líka er til í dæminu. Yfirleitt gengur það þokkalega og ef umræddur maður verður atvinnulaus, sem er heldur ekki bannað, fær hann lítils háttar greitt með hverju barni, engan veginn sem svarar meðlaginu. Mér reiknast svo til að hann sé með um 80 þús. kr. á mánuði til ráðstöfunar eftir skatt fyrir sjálfan sig og allar sínar þarfir, húsnæði og allt. Það gengur eiginlega ekki upp. Ég held að velflestir, herra forseti, séu sammála því að það gangi ekki upp.

Afleiðingin er sú að margir slíkir menn lenda í þeirri stöðu að þeir geta ekki unnið hvítt, þ.e. þeir verða að vinna með svartar tekjur bara vegna þess hvernig kerfið er uppbyggt.

Þetta er eitthvað sem ég held að hv. þingmenn þurfi að skoða, en þeir hafa ekki skoðað það hingað til vegna þess að þessar upplýsingar liggja ekki fyrir. Það liggur ekki fyrir hverjir borga meðlag, hverjir eru í þeirri stöðu að vera foreldrar barna sem þeir hafa ekki forsjá fyrir, hafa ekki sama lögheimili og börnin. Þar af leiðandi detta þeir bara út úr allri tölfræði. Þetta er eitthvað sem ég held að þetta frumvarp lagi og ég er mjög hlynntur því og ég vil að menn sýni sem réttasta tölfræði til að umræðan verði rétt.

Ég tel mjög brýnt að taka á vanda þessara foreldra, oftast karlmanna, sem eru að greiða meðlög og oft umtalsvert mikið og þeir geti jafnvel verið að fá meðlög á sama tíma. Þeir geta hafa stofnað nýja fjölskyldu og sú fjölskylda fær meðlag, en eru á sama tíma að greiða meðlög. Þetta er ekkert einfalt mál. Nú er það þannig að meðlagið er síst of hátt. Það er ekki of hátt, það er ekki helmingurinn af framfærslu barnsins sem það á að vera.

Þetta er því vandmeðfarið vandamál, en við þurfum alla vega að fjalla um það. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga sé mjög góð til að varpa ljósi á þennan vanda.