143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum.

519. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífsins í stafrænum miðlum sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd flytur. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að beita sér fyrir gerð sáttmála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum sem feli í sér hvenær og á hvaða forsendum megi safna eða vinna úr stafrænum upplýsingum um einstaklinga. Sáttmálinn kveði á um upplýst samþykki fyrir söfnun stafrænna upplýsinga, afturköllun samþykkis, hvaða gögnum megi safna, hver geymi þau og hvar og hvaða upplýsingar séu unnar úr þeim auk eyðingar þeirra. Við undirbúning slíks sáttmála verði leitað til þeirra ríkja sem byggja á mannréttinda- og lýðræðishefð.“

Svo mörg voru þau orð.

Hvaða þjóðir byggja á mannréttinda- og lýðræðishefð? Það eru þær þjóðir sem hafa fóstrað vestræna menningu, í okkar huga, Þjóðverjar og Frakkar og Bretar að einhverju leyti og síðan Bandaríkjamenn sérstaklega, sem hafa reist frelsisstyttu til heiðurs þessum mannréttindum, fengu hana reyndar gefna frá Frökkum.

Það hefur orðið gífurleg þróun í tölvuvinnslu, gagnageymslu, netvæðingu á undanförnum árum og áratugum. Ég þarf ekki annað en að sýna þennan síma hérna, sem gerir mér kleift að hringja hvert sem er hvar sem ég er staddur í heiminum nánast, og ég er meira að segja tengdur inn á netið með þessum síma o.s.frv. Þetta er ótrúlega mikil breyting á örstuttum tíma og hefur breytt hegðunarmynstri allrar þjóðarinnar og allra þjóða. Þetta auðveldar gagnaöflun og samskipti. Ég get haft samskipti við mann í næsta herbergi sem og í annarri heimsálfu. Ég get séð hvar ég er staddur. Ég get fengið app sem leiðbeinir mér um flókin gatnakerfi stórborga o.s.frv. Ég get fengið upplýsingar um hvað sem er á leitarvélum í gegnum þennan síma minn eða tölvu og til sögunnar eru komin svo óskaplega mikil áður óþekkt þægindi.

Upplýsingaöflun um menntun og kennslu hefur tekið stórstigum breytingum og sér ekki fyrir endann á öllum þeim breytingum. Almenningur hefur tekið þessum breytingum fagnandi og þær hafa náð fótfestu um allan heim með örfáum undantekningum.

Flest þessi forrit sem menn nota í símanum og tölvum eiga það sammerkt að safna öllum mögulegum upplýsingum um notendur. Það eru svona lævíslegar spurningar: Ertu sammála því að forritið fái að vita um staðsetningu þína o.s.frv.? Þannig er maður að borga fyrir forritið með því að veita upplýsingar um sjálfan sig.

Fyrir auglýsingar er verðmætt að vita um staðsetningu, hegðun og langanir viðtakanda. Þær upplýsingar eru því verðmæti fyrir marga og fyrirtæki sem komast yfir mikið af upplýsingum um milljónir manna ganga kaupum og sölum á áður óþekktum verðum. Það eru ótrúleg verð sem greidd eru fyrir svona forrit og svona hugbúnað og svona hugbúnaðarfyrirtæki.

Við greiðum í raun fyrir með upplýsingum um sjálf okkur. Þessu hafa menn tekið fagnandi og breytingin hefur orðið gífurleg, hvert einasta heimili er snortið af þessu.

Uppljóstranir Snowdens í júní 2013 sýndu aðra og töluvert dekkri hlið á þessari þróun. Nú er það þannig að leyniþjónustur allra landa hafa löngum lagt metnað sinn í að tileinka sér nýjustu tækni og vísindi til að afla upplýsinga um óvininn, þ.e. hernaðarlegar ásóknir í upplýsingar fylgja yfirleitt nýjustu tækni.

Sífellt hraðari hugbúnaður, sífellt ódýrari geymslumöguleikar og flutningsgeta ásamt gervitunglum, gefur leyniþjónustum áður óþekkta möguleika til að afla upplýsinga um gífurlegan fjölda fólks. Samkvæmt fyrstu uppljóstrunum Snowdens um njósnir NSA, bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, er hún að njósna um hundruð milljóna manna víða um heim. Samkvæmt bandarískum lögum, Patriot Act, ber bandarískum fyrirtækjum að afhenda NSA þau gögn sem hún krefst. Þar sem flestar leitarvélar, samfélagsmiðlar og gagnaflutningslínur eru bandarískar eða liggja um Bandaríkin hefur NSA aðgang að feiknamiklum gögnum um hundruð milljóna og milljarða einstaklinga. Uppljóstranir Snowdens ollu miklu fjaðrafoki í byrjun en síðan hjaðnaði málið. Sagt er: Það er eðlilegt að njósna og er einhver hissa? Og að flest ríki stundi njósnir. Þegar hins vegar kom í ljós að sími Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hafði verið hleraður um árabil, fór umræðan aftur á fullt. Ef menn gátu njósnað um hennar síma, hvað þá um símann minn og þinn, þ.e. síma einstaklinga? Það hefur nefnilega komið í ljós að verið er að njósna um miklu meira en flestir gera sér grein fyrir.

Frekari upplýsingar hafa komið fram. Dulkóðun, alla vega af þessari einfaldari tegund, er rofin með ýmsum aðferðum. NSA hefur aðferð til þess að rjúfa dulkóðun, alla vega einfaldari gerð.

Síðan kom í ljós að mögulegt er að afrit séu til af öllum stafrænum símtölum eins óþekkts ríkis, og að þau séu geymd. Það var ekki sagt hvaða ríki það væri, en að NSA hefði öll símtöl í ákveðnu ríki hjá sér í allt að einn mánuð, gæti geymt það í allt að einn mánuð. Allt það magn sem talað er um í heilu ríki.

Nú er það þannig að gagnageymsla verður sífellt ódýrari. Þannig að þetta er spurningin um tíma hvenær NSA getur hlerað og hlustað á símtöl í öllum ríkjum og geymt í 20 til 30 ár, það er bara spurning um tíma. Þessar upplýsingar hafa valdið mikilli umræðu um rétt einstaklingsins.

Vandinn við netið er sá að það er alþjóðlegt. Það er alls ekki auðvelt að finna hvar gögn eru geymd. Þetta kom í ljós núna við stuldinn hjá Vodafone. Hins vegar er lagasetning, framkvæmd hennar og eftirfylgni, í eðli sínu staðbundin og bundin við eitt ákveðið ríki. Þó að menn, í gegnum alþjóðasamstarf, geti víkkað það út. Þess vegna dugar ekki að setja lög í einu ríki.

Það hefur líka komið fram hjá nokkrum yfirmönnum leyniþjónusta að þeir telja sig ekki mega njósna um eigin borgara, en það sé réttur þeirra og jafnvel skylda að njósna um borgara annarra ríkja. Þar sem við sem einstaklingar — þá á ég ekki bara við Íslendinga — erum yfirleitt innlendingar í einu landi og útlendingar í allt að 190 löndum er ljóst að það eru ansi margar leyniþjónustur sem telja sig eiga rétt á því og vera skylt að njósna um hvern einstakling. Þessi gagnasöfnun er yfirþyrmandi. Það er ósköp lítið eftir órannsakað hjá hverjum einstökum borgara á jörðinni.

Til viðbótar við þessa opinberu ríkisgagnaöflun bætist við gífurleg söfnun gagna hjá einkafyrirtækjum, þessum öppum sem ég var að tala um áðan eða forritum sem hægt er að nota á símann. Þau eru að safna gögnum og þau ganga kaupum og sölum, þau eru kannski ekki síður hættuleg en það sem ríkin eru að safna í gegnum leyniþjónustur. Það virðist ekkert hægja á þessari þróun, gagnageymslu, tölvuvinnslu eða söfnun gagna, t.d. í gervitunglum. Þessi þróun stefnir í enn meiri möguleika á víðtækara eftirliti með einstaklingum.

Enn einn þátturinn í áhættunni eru hakkarar sem fræðilega séð geta brotist inn í hvaða gagnagrunn sem er. Það sem getur gerst, það mun gerast einhvern tímann. Spurning um sex mánuði, sex ár eða hvað það nú er, en einhvern tímann munu hakkarar ná í hvaða gögn sem er. Þetta er kannski stærsta áhættan í þessari miklu gagnasöfnun.

Það hefur sýnt sig, t.d. í Sovétríkjunum og Austur-Þýskalandi, þar sem slíkar njósnir höfðu verið stundaðar um árabil, að þær ollu mikilli tortryggni í þjóðfélaginu. Menn gátu ekki treyst vinum og kunningjum. Menn geta ekki treyst börnum og börn geta ekki treyst foreldrum. Tortryggni verður yfirgnæfandi í ríkjum þar sem upplýsingagjöfin er svona mikil. Afleiðingin af því, þegar menn fara að átta sig á því að gögn eru geymd og hleruð og skráð, getur orðið sú að mikil tortryggni brjótist út gagnvart netinu.

Þann 18. desember 2013, bara nýlega, samþykkti friðarnefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna drög að ályktun um friðhelgi einkalífs á tölvuöld, en hún er ekki bindandi. Þann 10. desember síðastliðinn birtu 562 listamenn ákall, þar á meðal nokkrir íslenskir, sem þeir nefndu: Í þágu lýðræðis á tölvuöld. Þar segja þeir, með leyfi forseta:

„Á síðustu mánuðum hefur það komist á allra manna vitorð hve útbreiðsla eftirlits með almenningi er orðin mikil. Með fáeinum músarsmellum getur ríkið fengið aðgang að farsímanum þínum, tölvupóstinum þínum, félagslegu tengslaneti þínu og hverju þú leitar að á netinu. Það getur fylgst með stjórnmálaskoðunum þínum og athöfnum og í samvinnu við netfyrirtækin safnar það saman og geymir gögnin þín, og getur þannig spáð fyrir um neyslu þína og hegðun.“

Enn fremur segir:

„Allir menn eiga rétt á því að hvorki sé fylgst með né abbast upp á hugsanir þeirra, persónulegt umhverfi þeirra og samskipti.“ — Þetta sé grundvallarstoð lýðræðis og friðhelgi einstaklingsins. — „Þessi grundvallarmannréttindi hafa verið gerð að engu með því að ríki og fyrirtæki hafa misnotað þróun tækninnar til þess að hafa eftirlit með almenningi.“

Enn fremur segir:

„Sá sem er undir eftirliti er ekki lengur frjáls; samfélag undir eftirliti er heldur ekki lengur lýðræði.“

Þetta er mjög mikilvægt. Áfram segir:

„Eftirlit brýtur gegn einkarými okkar og stofnar hugsana- og skoðanafrelsi í hættu. Með fjöldaeftirliti er komið fram við hvern einasta borgara sem mögulega grunaðan mann. Þar með er kollvarpað einum helsta sigri sögunnar, að gert sé ráð fyrir sakleysi hvers manns. Eftirlit gerir einstaklinginn gegnsæjan, á meðan ríkið og fyrirtækin starfa með leynd. Þessi völd hafa verið misnotuð með kerfisbundnum hætti, eins og við höfum séð. Eftirlit er þjófnaður. Þessi gögn eru ekki opinber eign: Þau tilheyra okkur.“

Síðan segir áfram:

„Við gerum kröfu til þess að allir menn, sem lýðræðislegir borgarar, hafi þann rétt að ákveða að hvaða marki safna megi saman, geyma og vinna úr persónugögnum þeirra, og hverjir megi gera það; að fá upplýsingar um það hvar gögn þeirra eru geymd og hvernig þau eru notuð; að fá því framgegnt að gögnum þeirra verði eytt ef þeim hefur verið safnað saman og geymd með ólöglegum hætti.“

— Svo skora þeir á öll ríki og fyrirtæki að virða þessi réttindi og alla einstaklinga að stíga fram og verja þessi réttindi.

Svo mörg voru þau orð. Það er í anda þessa ákalls sem þingsályktunartillaga þessi er flutt.

Með þingsályktunartillögunni er fylgiskjal eða skýrsla um ferð mína til þýska sambandsríkisins 15. janúar 2014, en þangað fór ég á vegum Alþingis og í umboði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að afla upplýsinga frá fyrstu hendi um hvernig þýska sambandsþingið, Bundestag, hygðist bregðast við uppljóstrunum um víðtækar njósnir Bandaríkjamanna á borgurum víða um heim. Þýskaland varð fyrir valinu, því að í ljós höfðu komið áralangar njósnir Bandaríkjamanna um kanslara landsins, auk þess sem þingmaður landsins hafði farið til Moskvu og hitt Edward Snowden uppljóstrara sem opnaði augu heimsins fyrir gagnaöflun Bandaríkjamanna.

Það nýjasta er það að búið er að stofna sérstaka nefnd á vegum þýska þingsins sem hyggst, ef mögulegt er, yfirheyra Snowden um frekari upplýsingar um þessar njósnir um einstaklinga.