143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum.

519. mál
[18:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari tillögu mjög og þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal sérstaklega fyrir að hafa staðið að henni og að því er virðist með miklum glæsibrag.

Ég var spurður að því um daginn hvers vegna fólk sem ekki kynni á tölvur ætti að kjósa Pírata. Mér skilst að þetta hafi verið meint pínulítið í háði en jú, við höfum það orðspor að tala ekki um neitt nema tölvur og internetið. Ég svaraði þeim einstaklingi því sama og ég skal segja hér, að jafnvel þótt maður noti ekki tölvur og jafnvel þótt maður kunni ekkert á tölvur þá er maður samt í tölvum úti um allan heim. Maður er í skrám úti um allan heim og það er fylgst með manni. Það þarf ekki mikið til þess að verða til í hinum ýmsu gagnagrunnum samtímans. Það þarf vissulega ekki mikið til til þess að stórveldi á borð við Bandaríkin eða mikil herveldi, svo sem Ísrael, eða bara gamalgróin Evrópuveldi, þjóðir eins og Þýskaland og Frakkland, hvað þá Bretland, vilji safna upplýsingum um útlendinga eða þá sem eru útlendingar gagnvart þeim svona af því bara, vegna þess að þær geta það. Hver er skaðinn? Það er jú auðvelt, það er tiltölulega auðvelt og ódýrt að gera þetta í mjög miklum mæli, hvað sem meintum borgararéttindum líður.

Það er rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að NSA eða National Security Agency í Bandaríkjunum getur rofið hina ýmsu dulkóðun. Það er satt. En þó vil ég benda áhorfendum og þjóðinni á að dulkóðun er fyrirbæri sem er stanslaust í þróun, þar er ákveðið vígbúnaðarkapphlaup í gangi. Menn þróa nýjar aðferðir við dulkóðun, þær eru brotnar, þá eru nýjar þróaðar, þær eru brotnar o.s.frv. Þetta eru mikil og mjög flókin vísindi, þau eru reyndar svo flókin að það er erfitt fyrir flesta leikmenn að kynna sér nákvæmlega hvernig dulkóðun virkar. Það er erfitt að ætla að dulkóða öll sín samskipti á netinu, jafnvel fyrir tæknimenn vegna þess að þeir eiga svo mikil samskipti við fólk sem er ekki tæknivætt. Og það er ekki hægt að gera þá kröfu að hver sem er verði tölvusérfræðingur bara til þess að njóta grundvallarmannréttinda á borð við friðhelgi einkalífsins. Þess vegna þurfum við á hinu háa Alþingi og stjórnmálamenn alls staðar að taka okkur til og tryggja að sú leið sem við förum í löggjöf og í pólitík miði að mannréttindum og að við gleymum því ekki að við þurfum að standa vörð um þessi réttindi, því að annars munum við týna þeim. Það er ekkert ef og ekkert kannski, líkurnar eru ekki 99,9% heldur 100%. Við munum tapa þessum réttindum ef við stöndum ekki vörð um þau.

Aftur er það rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal segir, og þótt ég vilji nú ekki stela allri ræðunni hans þótti mér hún bara svo góð að mér þykir mjög mikilvægt að fólk hlýði á hana og hafi hugfast það sem í henni var. Hann segir að margar þjóðir telji það skyldu sína að njósna um erlenda borgara. Og eins og hv. þingmaður nefnir réttilega erum við útlendingar í öllum öðrum löndum en lýðveldinu Íslandi. Það er einn vonargeisli í þeirri orðræðu og hann er sá að Ísland er ekki hervætt land. Við höfum ekki leyniþjónustu, við höfum ekki her, við höfum ekki þessa hervæddu innviði þar sem alltaf er verið að leita að einhverjum vondum kalli og reyna að hafa sem mest ítök. Við getum notað þessa staðreynd. Við getum notað hana til að öðlast trúverðugleika og við getum líka notað hana á viðskiptasviðinu til þess að laða að erlenda fjárfestingu og vera til fyrirmyndar í heiminum í þessum efnum. Við getum og ættum að verða miðstöð borgararéttinda á 21. öldinni.

Þótt tillagan varði aðallega það að koma þessum sjónarmiðum á framfæri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fagna ég henni mjög og þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega og innilega fyrir að standa að henni og leggja hana fram. Ég vænti þess að þingheimur samþykki hana og ég vona að þingheimur muni í leiðinni hversu mikilvæg hún er.