143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

stefnumótun heilsugæslu í landinu.

[10:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta hér tækifærið til að inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir stöðu mála hvað varðar stefnumótun fyrir heilsugæsluna í landinu. Nú hefur hæstv. ráðherra rætt það víða á opinberum vettvangi að hann hafi hug á því að efna þar til fjölbreyttari rekstrarforma. Ég skil það þannig að hann hafi hug á því að auka vægi einkarekstrar í heilsugæslunni og vitna þar til skýrslu, sérstaklega um Salastöðina í Kópavogi.

Ég hef verið að kynna mér þau málefni. Vissulega voru gerðar heilmiklar athugasemdir við þá skýrslu, einkum af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, við samanburðinn á rekstri ólíkra stöðva. Niðurstaðan af þeim athugasemdum var að kannski væri ekki alveg röklegt að draga of miklar ályktanir af skýrslunni hvað varðar endilega rekstrarform, þ.e. að Salaskýrslan væri ein og sér ekki nægileg fagleg rök fyrir því að fara að breyta rekstrarformi heilsugæslustöðva.

Þetta finnst mér mjög mikilvægt að Alþingi ræði og skoði, ekki síst þá staðreynd að þegar starf Salastöðvarinnar var metið var ekki farið í neitt sérstakt gæðamat á störfum stöðvarinnar. Það voru skoðuð afköst og vissulega var skoðuð ánægja en ekki til að mynda aðfangagæði, ferilgæði eða útkomugæði. Allt er þetta eitthvað sem ég tel að kalli á umræðu í þinginu þannig að mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra:

Stendur yfir einhver vinna við breytingar á rekstrarformi á heilsugæslustöðvum, hvort sem er hér á höfuðborgarsvæðinu eða úti um land? Hvernig er þeirri vinnu háttað, standi hún yfir? Hvernig hyggst hæstv. ráðherra haga samráði við Alþingi ef hann fylgir þessum áhuga sínum á breyttu rekstrarformi eftir? Mér finnst mjög mikilvægt að þá verði kafað ofan í þau gögn sem liggja að baki og ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti greint okkur frá því hvort einhver slík vinna er farin af stað.