143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

stefnumótun heilsugæslu í landinu.

[10:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um stefnumótun í heilsugæslunni. Fyrst vil ég tiltaka að það er engin skýrsla sem heitir Salastöðvarskýrsla. Þetta er úttekt sem var gerð á rekstri heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, mig minnir 2008 frekar en árið 2010, þar sem rekstur allra heilsugæslustöðva höfuðborgarsvæðisins var borinn saman, þeirra 15 sem ríkið rekur. Þar kom í ljós að afköst eftir stöðvum voru mjög mismunandi og sammerkt var með flestum stöðvunum að afköstin milli kl. fjögur og sex á dagvinnutíma ruku upp úr öllu valdi en utan þessa tíma voru afköstin mjög misjöfn. Það er rétt að Salastöðin kom ágætlega út úr þeim samanburði en sömuleiðis heilsugæslustöðin á Seltjarnarnesi sem er rekin af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Ég hef lýst yfir áhuga á því að reyna að auka afköstin á öðrum stöðum en þeim sem hafa skarað fram úr og kallað eftir tillögum í þeim efnum. Það verkefni sem þarna er í gangi hefur meðal annars verið kynnt öllum forstöðumönnum heilbrigðisstofnana, samtökum er tengjast heilbrigðisþjónustunni á tveimur fundum. Það er ítarlegt yfirlit yfir þetta verkefni undir heitinu Betri heilbrigðisþjónusta 2013–2017 á vef velferðarráðuneytisins og þar er hægt að nálgast allar upplýsingar um verkefnið sem þar er í gangi. Það hefur að meginmarkmiði að bæta gæði heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og um land allt. Það er sérstakur landsbyggðarhópur, hann er ekki kominn til vinnu enn þá. Meginmarkmiðið í því er að reyna að tryggja öllum Íslendingum aðgang að heilsugæslulækni.