143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

stefnumótun heilsugæslu í landinu.

[10:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég man ekki nákvæmlega hvort Salastöðin var tekin sem viðmið. Hins vegar kom hún best út í afköstum og það kann vel að vera að síðan hafi verið reiknað út frá því. Ef ég man þetta rétt stenst Seltjarnarnesstöðin allan samjöfnuð við Salastöðina. Það er almenn skoðun í gangi, greining á vegum hóps um innleiðingu þjónustustýringar sem ég hef áður gert grein fyrir í ræðum hér. Ég geri ráð fyrir því að eðlilega verði horft til gæða þeirrar þjónustu sem heilsugæslustöðvarnar veita.

Ég tel hana almennt mjög góða, gæðin mjög mikil. Það liggur hins vegar fyrir að skýringarinnar á þessum mismunandi afköstum er ekki að leita í mismunandi þjónustuhópum stöðvanna. Það liggur bæði fyrir í þessari skýrslu og ekki síður í úttekt Boston Consulting Group sem unnin var á síðasta kjörtímabili, þannig að skýringin liggur ekki þar. Ég geri ráð fyrir að reglulega verði kallað eftir upplýsingum um stöðu þessa verkefnis á Alþingi. Það er unnið á grunni gildandi laga og ég mun gefa skýrslu (Forseti hringir.) um framgang málsins þegar eftir því verður kallað.