143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

áhrif skuldaleiðréttingar á fjárhag sveitarfélaga.

[10:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra út í hvernig háttað er samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna hvað varðar fjárhagsleg áhrif af fyrirhuguðum skuldaaðgerðum ríkisstjórnarinnar á sveitarfélögin. Nú er ljóst að sveitarfélögin í landinu verða fyrir mjög umtalsverðu tekjutapi. Samkvæmt greinargerð frá ráðuneyti ráðherrans sjálfs sem efnahags- og viðskiptanefnd bað um getur samanlagt tekjutap sveitarfélaganna á næstu þremur árum í töpuðum útsvarstekjum, beinlínis á meðan séreignarsparnaðaraðgerðinni stendur, og tapaðar framtíðartekjur úr séreignarsparnaðarkerfinu miðað við áætlaða 3,5% ávöxtun orðið allt að 21 milljarður kr. miðað við eina af þremur sviðsmyndum sem þar er dregin upp. Við skulum ætla að vísu að það séu ytri mörk þess sem þetta getur kostað sveitarfélögin.

Nú hefur meiri hlutinn bætt um betur og hækkað fjárhæðarmörkin úr 500 þúsund í 750 þúsund hjá hjónum og samsköttuðum aðilum sem er ávísun á umtalsvert meira tekjutap, bæði ríkis og sveitarfélaga. Þá má ætla að dekksta sviðsmyndin hjá sveitarfélögunum sé komin í hátt á þriðja tug milljarða í tapaðar útsvarstekjur á næstu þremur árum og til frambúðar.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hefur samskiptum um þetta verið háttað? Er ætlunin að gera sérstakt samkomulag innan stofnana sem fjalla um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, Jónsmessunefnd og annars staðar, þar sem sveitarfélögunum verða að einhverju leyti bætt þetta tekjutap? Eða er það afstaða ríkisstjórnarinnar að sveitarfélögin eigi að bera tekjutapið óbætt?

Mér finnst ómögulegt annað en að við fáum skýr svör um það áður en við tökum til við að ræða þessi mál. Sveitarfélögin gátu lítið upplýst um það annað en (Forseti hringir.) helst það að þetta hefði borið á góma á einum fundi. Hvað getur hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra upplýst okkur um þetta?