143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[11:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, hér áttum við skoðanaskipti um í janúar, í lok janúar, byrjun febrúar, um stöðuna. Það sem markverðast hefur gerst síðan þá er að stjórn slökkviliðsins sendi erindi til ráðuneytisins með ósk um að hefja verklok. Við höfum verið að skiptast á skoðunum. Það ber gríðarlega mikið á milli í fjárhæðum og ég get alveg játað að ég hef ekki sem heilbrigðisráðherra úr digrum sjóðum að moða og hef leitað leiða til þess í gildandi fjárlögum að fjármagna þær óskir og kröfur sem sveitarfélögin hafa gert um greiðslur til viðbótar þeim greiðslum sem bundnar eru í fjárlögum.

Það er ekki í hendi og meðan svo er verður þetta í þessari pattstöðu. Þegar erindið um verklokin frá stjórn slökkviliðsins barst mér leitaði ég að sjálfsögðu leiða til að búa okkur undir það að til þess kynni að koma og átti viðræður við Landspítalann, Neyðarlínuna og lögregluna með það í huga að geta átt þá aðila að ef til þess kæmi að við þyrftum að ganga til þessara verklokaviðræðna.

Staða málsins er einfaldlega sú að fjárheimildirnar sem þarf til að uppfylla þær kröfur sem stjórn slökkviliðsins gerir á hendur ráðuneytinu til að standa undir þeim kostnaði sem slökkviliðið telur sig bera af þessum þjónustuþætti, (Forseti hringir.) svigrúm til að mæta þeim er ekki fyrir hendi og það hefur ekki fundist rými til þess enn.