143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[11:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hef við meðferð þessa máls í gegnum þingið gert við það nokkrar athugasemdir. Ég styð hins vegar þennan samning í krafti þeirra yfirlýsinga sem hafa komið frá framkvæmdarvaldinu um að engin ákvörðun hafi verið tekin um að breyta þeirri hefð sem hefur verið um aðgang Færeyinga til þess að veiða tiltekið magn af loðnu innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Sömuleiðis liggja fyrir alveg skýrar yfirlýsingar um það að framkvæmdarvaldið muni ekki taka neinar slíkar ákvarðanir án undangengins samráðs við utanríkismálanefnd um þetta mál. Miðað við þær yfirlýsingar frá ríkisstjórninni get ég stutt þetta mál í því formi sem það er.