143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[11:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Um þetta mál ríkti mjög góð samstaða í nefndinni og sömuleiðis eru skilaboðin til ráðherra mjög skýr í sjálfri tillögunni og greinargerð með henni og einnig í nefndaráliti. Það er kannski fullbratt að ætlast til þess að nefndin skili niðurstöðu 1. júlí nk., eins og segir í tillögugreininni, en ástæðan fyrir því að það stendur þarna enn er sú að það er þó nokkuð síðan nefndin afgreiddi málið áður en það kom til umræðu í þinginu. Það skýrir hvers vegna þessu var ekki breytt. Því kom það fram í máli mínu sem framsögumanns málsins við umræðuna að við teljum eðlilegt að ráðherrann og nefndin sem hann skipar fái tíma til áramóta til að ljúka verkinu svo að áfram sé gert ráð fyrir sama tíma og nefndin hafi ráðgert til vinnunnar.

Hæstv. ráðherra mun án efa skipa þessa nefnd hratt og vel og þess vegna tel ég að sá tími eigi eftir að nýtast vel og duga vel.