143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég hef líka miklar efasemdir um það frumvarp sem hér er til umræðu og hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir, um að hæstv. ráðherra geti tímabundið sett forstöðumann fyrir Fjölmenningarsetrið á Ísafirði til 31. desember 2015. Mér finnst það ekkert liggja fyrir og ekki hafa fengið neina umræðu hér á þingi né í velferðarnefnd hver verði áhrif þessarar fyrirhuguðu sameiningar Fjölmenningarseturs og Jafnréttisstofu og réttindagæslu fatlaðs fólks.

Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun og skynsamleg á sínum tíma að setja á stofn fjölmenningarsetur vestur á Ísafirði þar sem málefni innflytjenda brenna vissulega á en mjög hátt hlutfall innflytjenda er í þeim fjórðungi. Ég tel að starfsemin þar hafi sýnt fram á að stofnunin hafi verið vel til þess fallin, hún hefur staðið undir þeim kröfum að sinna vel þessu verkefni. Staðsetningin sem slík hefur ekki hamlað því að þar hefur verið mjög faglega að verki staðið og góð vinna sem hefur nýst öllu landinu.

Ég hef ákveðnar efasemdir í framhaldinu, ef af sameiningu þessara þriggja stofnana yrði, um framtíðina og hvernig farið verður með þá þekkingu sem byggst hefur upp í þessari stofnun. Þegar eitthvað hefur byggst upp úti á landi og gengið vel hefur reynslan sýnt, og ég óttast að svo verði nú, að við breytingar sé alltaf tilhneiging til að draga starfsemina hingað suður á höfuðborgarsvæðið og að henni verði stýrt héðan.

Ég hef því mikinn fyrirvara við framhald þessa máls og tel að ráðherra þurfi að gera miklu betur grein fyrir hvað hangir á spýtunni áður en hann leggur fyrir þingið frumvarp af þessu tagi, eins og þetta sé bara orðin niðurstaða sem verði án þess að það hafi fengið neina umræðu eða kynningu.

Það að við séum í eilífri varnarbaráttu, landsbyggðin, um störf sem krefjast menntunar og hafa einhverja vigt, er þá verið að tala um forstöðumenn og framkvæmdastjóra, að það sé alltaf verið að slást fyrir því að halda slíkum störfum, finnst mér bara sorglegt. Ég er nýbúin að gefa atkvæðaskýringu á byggðastefnu út af byggðaáætlun til næstu fjögurra ára, síðan eru svona mál alltaf að dúkka upp, alltaf verið að hleypa málum eins og þessum í óvissu. Verður dregið úr starfseminni? Hvar verður þessum málum stýrt til frambúðar? Hvar liggja störfin? Að það séu svo fáir starfsmenn og á þeim forsendum verði að draga úr starfseminni. Það er eins og mönnum detti aldrei í hug að það sé frekar lag að styrkja starfsemina til að byggja undir þann grunn sem fyrir er og styrkja þá þekkingu sem byggð hefur verið upp á ákveðnum stöðum; í þessu tilfelli erum við að tala um Fjölmenningarsetur á Ísafirði þar sem þekking hefur byggst upp á undanförnum árum og reynslan hefur sýnt að starfsemin þar hefur gengið vel.

Ég hef alla fyrirvara við þetta mál og mun vera mjög á varðbergi varðandi framhald þess.