143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því viðhorfi sem hv. þingmaður setti hér fram. Ég hef eins og hún mikla fyrirvara við framgang þessa máls. Ég sé það núna eins og umræðunni vindur fram að vanþekking mín á forsögu málsins stafaði ekki af því að eitthvað hefði farið fram hjá mér, það kom fram hjá hv. þingmanni að hún hefði ekki frekar en ég miklar hugmyndir um það hver ætluð framganga og framvinda málsins á að vera.

Ég er algjörlega sammála henni um að það er stöðug varnarbarátta að halda því sem flutt er út á landsbyggðina og koma í veg fyrir að því verði breytt. Við vitum það bæði og höfum staðið saman í baráttu einmitt varðandi þessa tilteknu örstofnun. Hversu oft hefur ekki verið reynt að feykja stoðum undan henni? Að minnsta kosti þrisvar svo ég muni eftir á síðustu árum.

Ég er þeirrar skoðunar að það kosti að halda landi í byggð. Jafnvel þó að hægt sé að sýna fram á einhvers konar tölulegt óhagræði af því að hafa þessa stofnun á Ísafirði stendur hún undir sínu verki. Hún er mikilvægur þáttur í stofnanaflórunni sem er á Vestfjörðum. Það eitt gerir það að verkum að ég staldra við.

Ég er reiðubúinn til þess að taka þátt í því að taka ákvarðanir sem í senn varða mjög jákvætt verkefni en líka viðhald byggða, þó að það kosti kannski svolítið mikla peninga. Látum það nú vera, það er aukaatriði.

Spurningin sem ég hef til hv. þingmanns er þessi: Er hún ekki þeirrar skoðunar, eins og ég er, að ef þetta mál er samþykkt í þeim búningi sem hæstv. ráðherra leggur hér til erum við í að gefa fyrirframsamþykki við þeim breytingum sem hún lýsti að eigi síðar að koma í framkvæmd?

Ég sagði áðan að það geti vel verið að það sé hið besta mál en við þurfum að skoða það. Ég er ekkert viss um að ég sé sammála því og þess vegna áskil ég mér rétt til að hafa aðra skoðun en ráðherrann (Forseti hringir.) og þar af leiðir að ég vil ekki taka þessa ákvörðun núna.