143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, mér finnst eins og hv. þingmanni verið að teyma okkur í að segja A og að í framhaldinu séum við búin að gefa fyrirframvilyrði okkar og göngumst inn á þessar sameiningar þótt við þekkjum ekki afleiðingar þeirra. Við höfum ekki fengið neina kynningu á því hvað þetta þýðir fyrir þær stofnanir sem eiga í hlut og fyrir þau störf sem liggja undir, hvort sem það er faglegi þátturinn eða það sem snýr að tilflutningi opinberra starfa í kjölfarið og hvar framkvæmdastjóri eða forstöðumaður verður þá staðsettur í framhaldinu.

Þeim spurningum er öllum ósvarað. Mér finnst að þegar farið er fram á þennan hátt þurfi það að vera miklu betur rökstutt. Er verið að draga úr starfsemi og er hægt að nýta þá fagþekkingu sem hefur byggst upp í þessu tilfelli í Fjölmenningarsetrinu? Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda, það hafa auðvitað verið mikil samlegðaráhrif eins og á Ísafirði í Þróunarsetrinu þar sem margar stofnanir eru undir sama þaki og hafa haft mikinn stuðning hver af annarri. Menn hafa ekki verið neitt eyland í þeim efnum. Það munar um allt þegar menn draga máttinn úr viðkomandi. Fagmennska og þekking flýtur kannski frá í framhaldinu og þá eru ríkari ástæður til þess að segja að viðkomandi starfsemi sé orðin það veik að það verði að flytja hana annað.

Ég hef mikinn fyrirvara (Forseti hringir.) við þetta mál.