143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrt svar og mjög vel rökstutt. Ég tek undir allar þær fullyrðingar og viðhorf sem komu fram í máli hv. þingmanns. Mergur málsins er sá að málið er ókannað, við eigum eftir að skoða hvort þær breytingar sem hæstv. ráðherra leggur til séu til farsældar. Það kann vel að vera. Ég áskil mér allan rétt til að styðja þær í fyllingu tímans.

Það mál verður þó ekki skoðað til hlítar núna á örfáum dögum fyrir þinglok. Þess vegna tel ég það í andstöðu við góða stjórnsýslu ef þingið mundi samþykkja þessa tillögu í þeim búningi sem hún liggur fyrir. Það kann vel að vera að það sé hægt að finna einhvers konar annað form á tillögunni en að óbreyttu sýnist mér að með því að samþykkja hana værum við um leið að gefa að minnsta kosti móralskt vilyrði fyrir því að við hygðumst líka samþykkja þær breytingar og þá samruna á stofnunum sem í kjölfarið fylgja. Það er einfaldlega algjörlega órætt mál.

Það getur vel verið að ég og kannski hv. þingmaður styðjum það að lokum, en á þessu stigi er ég ekki reiðubúinn að gera það að ókönnuðu máli. Þar af leiðir að ég tel það ótímabært og að það sé ekki í samræmi við góða stjórnsýslu að samþykkja þetta óbreytt.