143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil að vissu marki þann vanda sem hæstv. ráðherra stendur frammi fyrir þar sem núverandi forstöðumaður Fjölmenningarsetursins á Ísafirði hættir störfum 1. júní. Þá þarf að leysa það mál. Mér finnst hins vegar ekki rétt að stilla okkur upp við vegg í framhaldi af því viðfangsefni og ganga í raun og veru það langt að við séum að veita vilyrði okkar fyrir máli sem við erum ekki búin að fá neina kynningu á eða því sem fylgir þar í pokahorninu eða á því hvað þetta þýðir fyrir þessa starfsemi og fyrir störf á landsbyggðinni.

Ég segi fyrir mína parta að ég er orðin það brennd á stjórnmálamönnum og þeim opinberu störfum sem eru úti á landi að það rísa öll hár á mér þegar verið er að tala um að breyta því fyrirkomulagi sem fyrir er. Ég vil fá allt upp á borðið áður en menn ganga lengra í þá áttina. Sú opinbera starfsemi og stofnanir sem hafa farið út á land hafa sem betur fer sýnt að þær hafa gengið mætavel, eins og Fæðingarorlofssjóður og atvinnuleysistryggingar á Skagaströnd og Hvammstanga og fleira slíkt sem hefur verið farið með út á land. Það hefur sýnt sig að þetta hefur allt heppnast mjög vel. Forstöðumamanna fyrir slíka starfsemi, sem á við um allt landið, bíða mikil ferðalög til að sinna þessu starfi og í nútímaþjóðfélagi með nútímatækni á staðsetning slíks forstöðumanns ekki að vera fyrirstaða, hvort sem það er einhvers staðar úti á landi eða á höfuðborgarsvæðinu. Starfið mun kalla á mikil ferðalög til að hafa yfirsýn yfir það, ef af þessari hugmynd yrði.

Ég vil fá að vita meira áður en ég (Forseti hringir.) gef grænt ljós á einhverjar breytingar.