143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hafa vakið athygli á því að í raun erum við kannski að stíga tvö skref í einu — þá er spurningin hvort það sé réttlætanlegt — þ.e. annars vegar að reyna að koma til móts við að menn geti skoðað fyrirkomulag í stjórnsýslunni á nýjan hátt og hins vegar með því að festa ekki starf forstöðumanns Fjölmenningarseturs til fimm ára, en í raun má segja að um leið sé verið að binda að þessi þrjú atriði eigi að fara saman, Fjölmenningarsetur, Jafnréttisstofa og réttindagæsla.

Hafandi tekið þátt í þessum málaflokkum og hafandi fylgst með þeim þá er, í fjárlögum fyrir árið 2014, Jafnréttisstofa skorin niður um 7 milljónir, ef ég veit rétt, það fækkar störfum þar. Menn hafa verið í vandræðum með réttindagæsluna, viljað fá meiri mannskap þar til að geta fylgt málum betur eftir. Svo veltir maður fyrir sér: Hvað eiga þessir þrír hópar sameiginlegt, þ.e. það að vera innflytjandi, það að vera að berjast fyrir jafnrétti kynjanna og það að vera með fötlun? Ef menn hafa ætlað að búa til apparat sem gætti almennt mannréttinda þá er það annað sem mundi draga inn ýmsa þætti sem nú eru í innanríkisráðuneytinu.

Það er því gríðarlega mörgum spurningum ósvarað og erfitt að sjá fyrir sér að hægt sé að afgreiða þetta á mjög skömmum tíma.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir benti á: Hvað með tæknina? Af hverju getum við ekki verið víðar í landinu? Og erum við þá að stofna nýja skrifstofu sem verður hugsanlega dreifð út um allt land? Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því?

Er ekki ástæða til að óttast að sú tillaga sem hér er sé fyrst og fremst hagræðingartillaga en ekki til að bæta þjónustu? Mig langar aðeins að heyra sjónarmið hv. þingmanns á því.