143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, maður getur spurt sig að því hver hættan sé við að forstöðumaður sé skipaður til næstu fimm ára þar sem hann mundi vinna innan væntanlegrar stofnunar sem er í farvatninu í ráðuneytinu, ég tel nú að sú hætta ætti ekki að vera mikil. Auðvitað er það kannski spurning um launaþáttinn og það er það sem við komum alltaf að, það er það sem menn berjast oft fyrir úti á landsbyggðinni, að halda störfum sem hafa einhverja vigt í launum, að topparnir séu ekki alltaf á höfuborgarsvæðinu en undirmenn, sem hafa lægri laun, starfi í útibúunum úti á landi.

Eins og hv. þingmaður segir hefur núverandi forstöðumaður Fjölmenningarsetursins á Ísafirði verið eins og almennur starfsmaður og unnið þau störf sem fyrir hafa legið. Hver sem á í hlut, ég er ekki að tala um núverandi persónu sem slíka, mundi að öllum líkindum vinna áfram innan þessarar stofnunar þó með breyttu fyrirkomulagi væri. Mér finnst að það eigi algerlega eftir að greina samlegðaráhrif þessara stofnana. Þetta eru auðvitað mjög viðkvæmir málaflokkar allir. Mér finnst bara að okkur sé stillt upp við vegg að verið sé að þröngva okkur til að vera búin að samsama okkur þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að fara þessa leið, og kannski fyrst og fremst í hagræðingarskyni (Forseti hringir.) en ekki með faglegar meiningar (Forseti hringir.) að baki.