143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Nefndarálitið er að finna á þskj. 1070.

Nefndin fjallaði ítarlega um málið og fékk á sinn fund fjöldamarga aðila og fremst í útgefnu nefndaráliti er listi yfir þá einstaklinga og þá hagsmunaaðila sem komu fyrir nefndina. Mér telst til að þangað hafi komið 43 fulltrúar og komið fram fyrir hönd 21 aðila. Þá barst nefndinni fjöldi erinda í formi skriflegra umsagna, minnisblaða, athugasemda og upplýsinga sem má finna á vef Alþingis tengt málinu. Þá eru umsagnir hv. fjárlaganefndar, meiri hluta og minni hluta, sem fylgiskjöl með nefndarálitinu. Breytingartillögu við frumvarpið er síðan að finna á þskj. 1071.

Það má segja að umfang umfjöllunar nefndarinnar, bæði er varðar gestakomur og svo umsagnir og athugasemdir, endurspegli að einhverju leyti stærðargráðu og mikilvægi málsins. Frumvarpið má rekja til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að með markvissum aðgerðum verði tekið á skuldavanda íslenskra heimila og í því skyni mætti meðal annars beita skattalegum aðgerðum, og má finna í ályktun Alþingis frá 28. júní 2013 þar sem ákveðið var að setja á fót sérfræðingahóp sem fengi það verkefni að útfæra mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Sá hópur skilaði af sér tillögum í nóvember 2013, þar sem meðal annars var að finna skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar.

Frumvarpið er samið af starfshópi skipuðum af fjármála- og efnahagsráðherra. Í frumvarpinu er lagt til að samtals fjórum ákvæðum til bráðabirgða verði bætt við þrenn lög. Það eru í fyrsta lagi lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, í annan stað lög um tekjuskatt og svo hin þriðju, lög um húsnæðismál. Markmið ákvæðanna er að gera rétthöfum séreignarsparnaðar, að tilteknum skilyrðum fullnægt, fært að nýta viðbótariðgjald til greiðslu inn á höfuðstól verðtryggðra fasteignalána eða til öflunar húsnæðis án þess að þannig nýtt iðgjald teljist til skattskyldra tekna.

Þegar áhrif slíkra aðgerða eru metin er fullvíst að áhrifin eru víðtæk en þar sem ekki er hægt eðli máls samkvæmt að segja með fullri vissu til um hve margir muni nýta sér þau úrræði sem frumvarpið býður mun hin nákvæma endanlega mynd ekki fást fyrr en upplýsingar liggja fyrir úr umsóknum þeirra sem hyggjast nýta sér úrræðin.

Í ljósi þess að erfiðleikum er bundið að miða hámarksfjárhæðir við fasteign, eins og gert er ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi, leggur meiri hlutinn til að hámarksfjárhæðir verði tengdar við einstaklinga eða samskattaða aðila og leggur þannig til að hámarksfjárhæð verði óbreytt á einstaklinga 1.500 þús. kr. en hækki í tilviki samskattaðra í 2.250 þús. kr. samtals. Að því sögðu og þrátt fyrir að enn sé erfitt að meta heildarumfangið má ætla að á verðlagi ársins 2014 muni úrræðin í heild fela í sér eingreiðslu sem nemur á bilinu 65–88 millj. kr. á verðlagi ársins 2014.

Virðulegi forseti. Almennt bar á jákvæðni í garð frumvarpsins en fjöldi gagnlegra ábendinga barst nefndinni. Tilteknir þættir þess voru gagnrýndir þegar rýnt var í umfang þess og áhrif á efnahag þjóðar, ríkis og sveitarfélaga og mismunandi þjóðfélagshópa.

Í almennum athugasemdum frumvarpsins kemur fram mat á áhrifum þess á ríkissjóð. Þar kemur meðal annars fram að áhrif á ríkissjóð verði þau helst að tekjuskattsgreiðslur einstaklinga og fyrirtækja lækki, meira verði greitt í tryggingagjald, útgreiddar vaxtabætur verði lægri og innkoma veltuskatta meiri. Fyrir nefndina voru lagðar upplýsingar um að þegar allt væri talið verði ríkissjóður af 17–23 milljörðum kr. miðað við verðlag ársins 2014 í formi tekjuskatts vegna skattfrelsisins. Það tekjutap komi fram á næstu 40 árum. Að teknu tilliti til breytingartillögu meiri hlutans um hámarksfjárhæðir til greiðslu inn á höfuðstól lána og öflunar íbúðarhúsnæðis verður tekjutap ríkissjóðs að líkindum 20–27 milljarðar kr. á fyrrgreindu tímabili. Rétt er að taka fram að hér er ekki reiknað með tapaðri ávöxtun á umræddu tímabili vegna skattfrelsisins.

Í almennum athugasemdum frumvarpsins er stofnkostnaður við uppsetningu miðlægrar rafrænnar gáttar vegna umsókna um úrræði frumvarpsins og umsýslu við hana næstu þrjú til fjögur árin talinn geta numið allt að 50 millj. kr.

Fyrir nefndinni kom fram að tekjutap ríkissjóðs yrði að fullu fjármagnað með auknum skatttekjum ríkisins.

Þegar kemur að sveitarfélögunum munu útsvarsgreiðslur einstaklinga lækka en fasteignagjöld og þjónustuskattar að líkindum hækka vegna aukinna umsvifa. Að teknu tilliti til breytingartillögu meiri hlutans varðandi hámarksfjárhæðir til greiðslu inn á höfuðstól munu neikvæð áhrif á sveitarfélögin nema 9–13 milljörðum kr. á næstu 40 árum.

Í minnisblaði sem fylgdi umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið kemur fram nokkuð ítarlegt mat á áhrifum á sveitarfélögin. Þar er talið að heildaráhrif á sveitarfélögin vegna aðgerða í húsnæðismálum geti numið á bilinu 8–9 milljörðum kr. þar sem langtímatekjutap verði rúmlega 10 milljarðar en tekjutap næstu þrjú árin verði nær 1,6 milljörðum. Á móti kemur hins vegar áætlaður 3,2 milljarða kr. tekjuauki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Af hálfu fulltrúa Reykjavíkurborgar kom fram, miðað við gefnar forsendur, að áhrif á borgina yrðu neikvæð um 1,9 milljarða á árunum 2014–2017 á verðlagi ársins 2014 og 3,4–4,6 milljarðar í heildina.

Það er mat meiri hlutans að það liggi í hlutarins eðli við slíka ákvörðunartöku að sveitarfélögin verði fyrir tekjutapi þar sem Alþingi ákvarði tekjustofna þeirra með lögum. Það megi því spyrja að hvaða leyti tekjutapið nemi meiru en það tap sem sveitarfélögin kunna að verða fyrir að öðru leyti, eða ávinningur eins og var um að ræða á árunum 2012–2014. Þar nutu sveitarfélögin aukins tekjuflæðis vegna tímabundinnar lækkunar viðbótariðgjalds úr 4% í 2%, auk þess sem heimilar úttektir séreignarsparnaðar frá árinu 2009 hafa skilað sveitarfélögunum umtalsvert auknum útsvarstekjum.

Í minnisblaði sem nefndinni barst frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kemur fram að úttektir sparnaðar nemi hátt í 100 milljörðum. Þess ber að geta að á fundi nefndarinnar komu fram athugasemdir við mat á áhrifum frumvarpsins á sveitarfélög og vísað til þess hversu óljóst væri hver áhrifin yrðu að endingu. Jafnframt var þó látinn í ljós skilningur á því hve erfitt væri að nálgast forsendur.

Virðulegi forseti. Sveitarfélögin fara vissulega á mis við skatttekjur af þessari aðgerð og í umræddu minnisblaði kemur jafnframt fram að frumvarpið hafi í för með sér að lífeyriskerfið fari á mis við 60–82 milljarða kr. á verðlagi ársins 2014 sem renni þá ekki til vörsluaðila séreignarsparnaðar fram til ársins 2019 en breytist þó í annað sparnaðarform, nefnilega íbúðarhúsnæði.

Á móti kemur að aukin umsvif muni leiða til minna atvinnuleysis og að létt verði á fjárfestingarþörf lífeyriskerfisins, sem í ljósi fjármagnshafta getur dregið úr hættu á bólumyndun.

Í umsögn fulltrúa lífeyrissjóða kom fram að þrátt fyrir að þeir legðust almennt gegn inngripum í viðbótarlífeyrissparnað væru þeir ekki mótfallnir frumvarpinu þar sem í því væri að finna hóflega aðgerð og tímabundin úrræði og að sparnaði yrði varið til eignamyndunar sem getur jafnframt nýst einstaklingum á efri árum. Bent var á að úrræði frumvarpsins kynnu að hafa þau jákvæðu áhrif að fleiri sæju sér hag í að byrja að leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnað.

Ef marka má sviðsmynd 1 í athugasemdum með frumvarpinu og bæði úrræðin gæti bæst verulega í þann hóp sem sér sér hag í því að spara. Ef við skoðum jákvæðu áhrifin á lánakerfið í heild sinni hljóta þau að vera bætt lánasöfn, lægri greiðslubyrði og að færri lántakendur lendi í greiðsluvandræðum. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja kemur fram að þau hafi átt tvo fulltrúa í sérfræðingahópnum og þau telja að vel hafi tekist til að meta málamiðlun ólíkra sjónarmiða sem endurspeglast í frumvarpinu. Áhrifin á Íbúðalánasjóð verða þó nokkur og kom fram í mati þeirra að ætla mætti að tjón sjóðsins af uppgreiðslum mundi nema 3,5–11 milljörðum kr. á ári, þ.e. 7,5–24 milljörðum kr. samtals á fjögurra ára tímabili. Matið byggist á því að sjóðurinn þurfi að fást við háar uppgreiðslur og slaka ávöxtun á lausu fé. Í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur hins vegar fram að árlegt vaxtatap sjóðsins yrði 1,3 milljarðar kr., þ.e. 5,2 milljarðar kr. á fjórum árum.

Meiri hlutinn bendir á að um þessar mundir er unnið heildstætt að málefnum Íbúðalánasjóðs í velferðarráðuneytinu. Þó nokkur gagnrýni kom fram um að ráðstöfun greiðslna kæmi fyrst inn á greiðslujöfnunarreikninga og bent á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga væri gert ráð fyrir því að skuld sem stendur eftir á jöfnunarreikningi í lok þriggja ára frá lokum upprunalegs lánstíma skuli gefin lánþega eftir og afmáð úr veðmálabókum.

Þetta gaumgæfði nefndin og við nánari skoðun komst hún að því að ekki væri ástæða til að gera breytingar hvað þetta varðar. Tilgangur greiðslujöfnunar er að aftra því að greiðslubyrði lána þyngist ef neysluvísitala hækkar hraðar en laun almennt. Mismunurinn færist á jöfnunarreikning sem myndar verðtryggða skuld, sem ber sömu vexti sem telst til höfuðstóls lánsins og bætist við eftirstöðvar þess. Skylda til greiðslu jöfnunarfjárhæðar virkjast þegar jöfnunarvísitalan verður hærri en neysluvísitalan.

Á tímabilinu 2010 til 2014 hefur greiðslujöfnunarvísitala hækkað um 7% umfram neysluvísitölu. Vænta má að sú þróun haldi áfram til langs tíma og greiðslujöfnunin muni því greiðast upp á lánstímanum sem er um 30 ár af lánstíma flestra þeirra lána sem úrræðið snertir.

Ýmsir hagsmunaaðilar töldu úrræði frumvarpsins ná til of þröngs hóps. Þannig var meðal annars gagnrýnt að úrræðunum væri aðeins ætlað að ná til þeirra sem enn eru á vinnumarkaði og greiða í séreignarlífeyrissparnað á næstu árum, að þau næðu ekki til lífeyrisþega sem ekki hafa neinar launatekjur og ekki heldur til þeirra sem eiga búseturétt hjá húsnæðissamvinnufélagi og standa skil á búsetugjaldi. Þar að auki kom fram að úrræðin mundu ekki nýtast öllum leigjendum húsnæðis að fullu þar sem ákveðinn hópur þeirra hefur ekki þær tekjur sem þarf til að fullri nýtingu verði náð.

Meiri hlutinn vísar til uppruna frumvarpsins í þeirri þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi þann 28. júní 2013 og útfærslu frumvarpsins sem úrræðis til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána.

Aðstæður annarra hópa sem hafa lýst áhuga á að falla undir úrræði frumvarpsins voru, og eru, oft allt aðrar en þess hóps sem frumvarpið beinist að. Líklegt má telja að annars konar úrræði nýtist þessum hópum betur.

Nefndin var hvött til þess að leggja til undanþágu frá tímabilum heimilda til að nýta sér úrræði frumvarpsins svo námsmenn sem verða við nám erlendis fái notið þeirra. Skilningur meiri hlutans er sá að úrræði frumvarpsins beinist að hópi fólks sem verður á vinnumarkaði á tilteknu tímabili, en jafnframt bent á að í skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála er að finna tillögu um að heimild til nýtingar séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis verði varanleg. Að mati meiri hlutans eru því nú þegar líkur á því að síðar verði komið til móts við þá sem nú eru við nám erlendis.

Fyrir nefndinni kom það sjónarmið fram að æskilegt væri að úrræði frumvarpsins næðu til handhafa búseturéttar hjá húsnæðissamvinnufélögum. Handhafarnir geta nýtt sér úrræði b-liðar 1. gr. frumvarpsins og greitt búseturéttargjald með viðbótariðgjaldi eins og fram kemur í athugasemdum frumvarpsins. Þá er sá skilningur meiri hlutans að þeim verði heimilt að nýta viðbótariðgjald samkvæmt a-lið 1. gr. til þess að greiða inn á höfuðstól láns sem tekið hefur verið vegna öflunar búseturéttar.

Nefndin var jafnframt hvött til að leggja til breytingu á frumvarpinu til að koma til móts við þá sem farnir eru af vinnumarkaði, afla ekki lengur launatekna og geta því ekki nýtt sér úrræði frumvarpsins. Að mati meiri hlutans mundi breyting af þessu tagi, í ljósi forsögunnar, hafa í för með sér umtalsverða mismunun gagnvart ólíkum hópum, enda hafa þeir rétthafar sem þegar hafa nýtt sér heimild til þess að taka út uppsafnaðan séreignarsparnað samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þegar greitt af þeirri fjárhæð fullan tekjuskatt. Þá er úrræðum frumvarpsins beinlínis beint að þeim sem eru á vinnumarkaði og þeir með því hvattir til aukins sparnaðar.

Meiri hlutinn bendir á að í tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála komi fram ítarlegar hugmyndir um uppbyggingu virks leigumarkaðar, m.a. breytingu á húsaleigubótakerfinu þannig að stuðningur taki mið af efnahag og breytingu á stuðningi við leigufélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

Fyrir nefndinni kom fram nokkur gagnrýni á að í frumvarpinu væri aðeins gert ráð fyrir að þeir sem greiða iðgjald til vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar geti nýtt sér úrræði frumvarpsins en ekki þeir sem greiða iðgjöld á grundvelli samninga um viðbótartryggingavernd þrátt fyrir að bæði sparnaðarformin séu byggð á sama lagagrundvelli, þ.e. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Hér á eftir er gerð grein fyrir tillögum meiri hlutans til breytingar á umsóknartíma um greiðslu viðbótariðgjalds inn á höfuðstól fasteignalána. Sú tillaga er lögð fram til að koma til móts við gagnrýni söluaðila viðbótartryggingaverndar. Þá hvetur meiri hlutinn fjármála- og efnahagsráðherra til að hafa samráð við slíka söluaðila við setningu reglugerða á grundvelli ákvæða frumvarpsins.

Við skoðuðum fleiri atriði í nefndinni og gerðum breytingar þar sem við átti. Þegar kemur að launatímabili er samkvæmt 1. málslið 1. mgr. a-liðar 1. gr. frumvarpsins heimild til að nýta viðbótariðgjald til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota bundin við tiltekið tímabil. Fyrir nefndinni kom sú athugasemd fram að óljóst væri hvað átt væri við með orðinu tímabil í frumvarpsgreininni.

Með skýrleika og samræmi að leiðarljósi leggur meiri hlutinn til að skýrt komi fram í lagatextanum að með tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 sé átt við launatímabil. Heimildin miðast þannig við launagreiðslur fyrir þetta tímabil en ekki þau viðbótariðgjöld sem berast á tímabilinu.

Kem ég þá að hámörkum til greiðslu inn á höfuðstól lána og öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Eins og ég vék að í upphafi komu fyrir nefndina breytingar og mikil umræða varð um það hvernig ætti að bregðast við ákveðnu viðfangsefni sem ég skýri í þessari grein. Í 1. og 2. málslið 2. mgr. a-liðar 1. gr. frumvarpsins eru lögð til ákveðin hámörk viðbótariðgjalds sem hægt verður að nýta til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Hliðstæð ákvæði koma fram í 1. og 2. málslið 2. mgr. b-liðar 1. gr. og þau endurspeglast einnig í 1. og 2. mgr. 2. gr. Þar er kveðið á um að fjárhæðir undir hámörkunum teljist ekki til skattskyldra tekna.

Fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við tilgreiningu hámarkanna í téðum ákvæðum frumvarpsins og talið að ekki kæmi nægjanlega skýrt fram að ætlast væri til þess að framlag launagreiðanda færi ekki umfram 2% af iðgjaldsstofni og væri ekki hærra en framlag launþegans sjálfs.

Í sérstökum athugasemdum við a-lið 1. gr. kemur eftirfarandi fram:

„Ef miðað er við 4% framlag rétthafa af iðgjaldsstofni getur framlag hans að hámarki numið 333 þús. kr. á ári og framlag launagreiðanda 167 þús. kr. á ári miðað við 2% mótframlag hans af iðgjaldsstofni. Þar sem framkvæmd úrræðisins hefst og henni lýkur á miðju ári miðast úrræðið við 250 þús. kr. árin 2014 og 2017 en 500 þús. kr. árin 2015 og 2016.“

Hliðstæðar skýringar er að finna í sérstökum athugasemdum við b-lið 1. gr. og 2. gr.

Í frumvarpstextanum er vísað til þess að hámarksfjárhæðir til greiðslu inn á höfuðstól lána og öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota séu miðaðar við hverja fasteign. Við meðferð málsins kom í ljós að það yrði verulegum erfiðleikum bundið að miða hámarksfjárhæðir við þá fasteign sem nýtt er sem íbúðarhúsnæði en ekki þá einstaklinga sem þar búa. Fyrir nefndinni lá það mat sérfræðinga að mjög erfitt yrði að framkvæma þau úrræði sem felast í frumvarpinu ef þetta yrði óbreytt. Skiptir þar mestu að séreignarsparnaður er í grundvallaratriðum einstaklingsbundinn réttur og það er sífelldum breytingum háð hvaða einstaklingar deila íbúðarhúsnæði.

Til þess að tryggja að ákvæðin verði nægilega skýr leggur meiri hlutinn til breytingu á orðalagi þeirra. Þannig er lagt til að fjárhæðartilgreiningar í sérstökum athugasemdum við a-lið og b-lið 1. gr. og 2. gr. verði teknar upp í ákvæðin. Hvað 1. gr. varðar felur tillaga meiri hlutans í sér nánari skýrgreiningu en þar er að finna þannig að kveðið verði á um hámörk í tilviki einstaklinga, hjóna og samskattaðra í aðgreindum málsliðum. Hvað 2. gr. varðar felur tillagan í sér að kveðið verði á um hámörk í tilviki einstaklinga og samskattaðra í aðgreindum málsliðum í nýrri málsgrein. Í tillögu meiri hlutans felst einnig að hámarksfjárhæðir eru tilgreindar miðað við að hægt verði að tengja þær annaðhvort við einstaklinga eða samskattaða í stað þess að þær verði tengdar við fasteign. Sú breyting leiddi hins vegar til þess að taka þurfti ákvörðun um hvort lækka ætti hámarksfjárhæðir í tilviki einstaklinga eða hækka í tilviki samskattaðra. Mat meiri hlutans var að betra væri að hækka hámarksfjárhæðir samskattaðra því að lækkanir á einstaklinga mundu leiða til þess að úrræði frumvarpsins nýttust mun verr þeim sem hafa staðið einir að öflun íbúðarhúsnæðis eða munu gera það.

Fjallað var um umsóknartíma um greiðslu viðbótariðgjalds inn á höfuðstól fasteignalána, en fram kemur í 2. málslið 3. mgr. a-liðar 1. gr. frumvarpsins að sú meginregla um umsókn um greiðslu viðbótariðgjalds inn á höfuðstól fasteignalána gildi um iðgjöld sem greidd eru eftir að umsóknin berst. Lögð er til sú undantekning frá téðri meginreglu að umsókn geti gilt um iðgjöld vegna launa frá 1. júlí 2014 svo fremi sem umsóknin berist fyrir lok september 2014.

Fyrir nefndinni sætti framangreind undanþága frá meginreglunni gagnrýni þar sem hún kynni að valda óvissu. Reyndi meiri hluti nefndarinnar að bregðast við þessu og nefndin fjallaði í sjálfu sér öll um það. Það var ljóst að um nokkra hríð kynni að skapast óvissa um hverjir mundu skila inn umsókn um greiðslu inn á höfuðstól fasteignalána fyrstu mánuðina.

Meiri hlutinn telur því rétt að koma til móts við þessa gagnrýni og miða lok umsóknartímans við 1. september 2014 enda verður hægt að skila inn umsókn mjög skömmu eftir að frumvarpið verður að lögum en ætla má að launagreiðendur skili iðgjöldum vegna júlímánaðar til vörsluaðila 10. ágúst 2014.

Ráðstöfun iðgjalda til lánveitenda kemur fram í 2. málslið 8. mgr. a-liðar í 1. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að vörsluaðilar skuli ráðstafa greiddum iðgjöldum til þeirra lánveitenda sem umsækjendur hafa valið eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári, í fyrsta sinn í nóvember 2014 en eftir það á að minnsta kosti þriggja mánaða fresti.

Skilningur meiri hlutans er sá að ekki hafi verið ætlunin að kveða á um að vörsluaðilum væri óheimilt að ráðstafa greiddum iðgjöldum til lánveitenda nema þrír mánuðir liðu á milli ráðstafana heldur hafi staðið til að ráðstöfunin ætti sér stað ekki sjaldnar en á þriggja mánaða fresti. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu að skýrt verði kveðið á um að ráðstöfunin skuli eftir nóvember 2014 eiga sér stað eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti.

Tímamark greiðslu frá vörsluaðilum til lánveitenda kemur fram í 3. málslið 8. mgr. a-liðar 1. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að vörsluaðilar viðbótariðgjalda sem nýtt eru til greiðslu inn á höfuðstól lána skuli ráðstafa greiðslum til lánveitenda áður en greiðsluseðlar vegna lánanna eru gefnir út.

Þetta fyrirkomulag var gagnrýnt og bent á að engin leið væri fyrir vörsluaðila að fylgjast með því hvenær lánveitendur gefa út greiðsluseðla og þeir væru því vart í aðstöðu til að tryggja að greiðslur færu inn á höfuðstól lána en gengju ekki upp í annan kostnað.

Að mati meiri hlutans á gagnrýnin rétt á sér enda virðast gjalddagar á lánum vera mismunandi milli lánveitenda og tegunda lána. Telur meiri hlutinn eðlilegra að taka frekar mið af þeirri meginreglu sem leiða má af 9. mgr. a-liðar 1. gr. að greiða skuli inn á höfuðstól þeirra lána sem eru í skilum og leggur til breytingu þess efnis.

Þegar kemur að því að nýta viðbótariðgjaldið til öflunar íbúðarhúsnæðis, sem sjá má í 2. málslið 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins, er það skilyrði sett fyrir því að heimilt verði að nýta viðbótariðgjald á tilteknu tímabili til öflunar íbúðarhúsnæðis að rétthafi sé ekki eigandi að íbúðarhúsnæði 1. júlí 2014 til 30. júní 2017.

Fyrir nefndinni kom það álit ítrekað fram að framangreint skilyrði gæti skapað vandkvæði og jafnvel leitt til óheppilegrar niðurstöðu, einkum þegar skipt er um húsnæði á tímabilinu sem um ræðir. Að mati meiri hlutans er óæskilegt að skilyrðið dragi úr vilja manna til að skipta um íbúðarhúsnæði. Þó verður að hafa í huga að markmið ákvæða b-liðar 1. gr. er að aðstoða fólk við undirbúning kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota en ekki að stuðla að íbúðarkaupum í fjárfestingarskyni. Því er eðlilegt að nýting viðbótariðgjaldsins verði háð því að umsækjandi hafi ekki átt íbúðarhúsnæði á tilteknum tíma. Meiri hlutinn telur þó rétt að gera breytingar á skilyrðinu og leggur til að í stað þess að kveðið verði á um að rétthafi megi ekki vera eigandi að íbúðarhúsnæði á tilteknu tímabili sé í því kveðið á um að viðkomandi megi ekki hafa verið eigandi að íbúðarhúsnæði á þeim tíma þegar heimildin er nýtt.

Þá vík ég að fjárhæðum viðbótariðgjalda sem ekki teljast til tekna, en athygli nefndarinnar var vakin á því að ekki kæmi nægilega skýrt fram í frumvarpinu hvernig fara skyldi með útgreiddan séreignarsparnað umfram mörk sem eru sett í 1. og 2. mgr. 2. gr., en þar er átt við hvort fjárhæðir umfram þær sem tilgreindar eru í málsgreinunum teljist til skattskyldra tekna eður ei.

Að mati meiri hlutans er óhjákvæmilegt, m.a. með tilliti til jafnræðissjónarmiða, að sá hluti útgreiðslu sem fer umfram fjárhæðarmörkin teljist til skattskyldra tekna á greiðsluári. Skattfrelsið er þannig takmarkað af ákveðnu hámarki og eðli málsins samkvæmt eru útgreiðslur umfram það skattskyldar. Til að taka af allan vafa í þessu tilliti leggur meiri hlutinn til að skýrt verði kveðið á um að útgreiðslur umfram hámark séu skattskyldar tekjur í skilningi laga um tekjuskatt. Í tillögunni er jafnframt gert ráð fyrir því að ótvírætt komi fram að fjárhæðir hámarksins verði samanlagt 1.500 þús. kr. hjá einstaklingi og 2.250 þús. kr. hjá hjónum og sambýlisfólki sem er samskattað, hvort sem séreignarsparnaður er greiddur inn á höfuðstól samkvæmt 1. mgr. eða ráðstafað í húsnæðissparnað samkvæmt 2. mgr.

Ég kom að því í upphafi umfjöllunar að feikilegur fjöldi fulltrúa hagsmunaaðila kom fyrir nefndina sem endurspegli á margan hátt hvað þetta snertir marga hópa og er í raun víðtækt í efnahagslegum skilningi. Settum við í nefndarálitið niðurstöðukafla sem dregur saman megintilganginn með þessu frumvarpi. Það felur í sér hvata til aukinnar vinnu og sparnaðar. Fólk verður hvatt til sparnaðar. Til lengri tíma litið mun aukning sparnaðar koma fram í því að fólk eignast meiri hlut en ella í fasteignum sínum. Þá eykur samþykkt frumvarpsins líkur á að íbúar landsins verði betur settir hvað eignir varðar þegar þeir komast á lífeyrisaldur.

Með frumvarpinu er komið til móts við heimilin í landinu með almennum aðgerðum án þess að fórna sjálfbærni og stöðugleika við stjórn ríkisfjármála. Það hefur verið forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að finna lausnir á skuldamálum heimilanna. Með frumvarpinu er stigið mikilvægt skref á þeirri braut og því ber að fagna. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum í álitinu sem ég fór yfir og fylgja í þskj. 1071.

Undir þetta nefndarálit rita hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, Willum Þór Þórsson, Pétur H. Blöndal, Líneik Anna Sævarsdóttir og Brynjar Níelsson.