143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. frummælanda, hv. þm. Willum Þór Þórssyni, fyrir framsögu hans og fyrir nefndarálitið frá meiri hlutanum en líka fylgir nefndarálit frá minni hluta.

Það sem hefur komið á óvart í sambandi við alla þessa skuldaumræðu er skilgreiningin á heimili. Hún hefur vakið furðu mína, því að við erum alltaf að tala um að það eigi að hjálpa heimilunum og menn tala mikið um það. Skilgreiningin er þeir sem eiga skuld, verðtryggða skuld, þeir eru á heimili, allir hinir eru ekki á heimili. Þetta finnst mér alveg með ólíkindum vegna þess að við vitum náttúrlega að obbinn af fólkinu í landinu býr ekki endilega við þetta, það eru mjög margir sem búa við aðrar aðstæður.

Það kemur ágætlega fram í minnihlutaáliti að menn hafa líka verið að skoða hver áhrif eru á skuldastöðuna, á greiðslubyrði og að það skipti kannski mestu máli að létta af fólki greiðslubyrði.

Þess vegna langar mig að spyrja um greiðslujöfnunarreikninginn. Það er niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að það skipti engu máli hvort það borgar fyrst inn á hann. Hvaða áhrif hefur það á greiðslubyrði til skamms tíma? Hvaða áhrif hefur það á greiðslubyrði ef það er borgað fyrst niður þarna? Af hverju er verið að forgangsraða þannig að þetta fari fyrst inn á þann reikning? Það hlýtur að vera beiðni eða ósk frá bönkunum. Það getur ekki verið nein önnur ástæða. Af hverju skyldu menn ekki taka annað á undan? Af því að þarna er öryggisákvæði fyrir þá sem eru með háa greiðslubyrði og hafa valið að setja ákveðna hluta inn á jöfnunarreikning.

Það hefur komið fram áður í andsvari varðandi aðra hópa. Af hverju hækkuðu menn um 250 þús. kr. greiðsluna inn á möguleikana? Hvað eru margir hópar, hvar eru mörkin núna, tekjumörkin, þannig að maður geti nýtt sér séreignarsparnaðinn, þ.e. þeir sem hafa nægar tekjur til að fullnýta þessa heimild? (Forseti hringir.) Mér finnst það skipta mjög miklu máli. Mér sýnist að verið sé að auka á ójöfnuðinn frekar en hitt með þessum breytingum.