143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir fjölmargar spurningar. Ég reyndi eins og ég gat að ná utan um þetta allt saman.

Varðandi greiðslujöfnunina er hún bundin í lög og við könnuðum það nákvæmlega í nefndinni, nefndin öll. Það vill svo til að þetta er um 1,7% af heildarstabbanum sem skoðaður var hjá Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðunum og öðrum lánastofnunum, bönkunum. Þannig er að ákveðnum hluta er skutlað aftur fyrir. Þessi umræða varð í kjölfar þess að það voru ákveðnar væntingar um að sá hluti yrði að lokum felldur niður eða afmáður úr veðmálabókum þar með, en í ljós kemur að það eru tvær vísitölur sem eru skoðaðar, annars vegar neysluvísitala og hins vegar svokölluð greiðslujöfnunarvísitala. Þá er aðallega miðað við laun og atvinnustig og þannig er að greiðslujöfnunarvísitalan hefur verið hærri en neysluvísitalan frá 2010. Þar með eykst greiðslubyrði fólks sem er með þessa greiðslujöfnun, það er bara staðreynd. Það besta fyrir fólk væri að greiðslujöfnunin yrði greidd niður í þessari aðgerð og það segði sig síðan frá því úrræði. Það er hagkvæmasta leiðin fyrir fólk. Þetta skoðuðum við mjög gaumgæfilega.

Ég held að ég verði síðan að koma að svari við öðrum spurningum í seinna andsvari.