143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málið er vanreifað vegna þess að mál af þessari stærðargráðu, sem hefur svona gríðarleg áhrif á ríkisfjármálin, þarf alvöruumræðu og umfjöllunar við. Það liggur fyrir að meiri hlutinn gerði breytingu á málinu og jók mjög á umfang þess á síðasta fundi þegar málið var tekið út og hafnaði því að bera þá breytingu undir umsagnaraðila eða fá Seðlabankann á fund. Það er algjörlega ljóst að þessi framgangsmáti mundi ekki ganga miðað við frumvarpið um opinber fjármál sem liggur nú fyrir þinginu.

Hv. þingmaður ber saman þessa leið og þá leið til úttektar séreignarsparnaðar sem ákveðin var með tímabundnu lagaákvæði á síðasta kjörtímabili. Þá er því til að svara að í því tilviki, hvað þá 93 milljarða varðar, voru greiddir af þeim skattar í mjög ríkum mæli, í hæsta skattþrepi. Hér er hins vegar verið að tala um skattfrjálsa ráðstöfun. Það er sú staðreynd að ekki verði greiddur skattur af þessum peningum sem er vandamál. Um leið og það er ákveðið vakna auðvitað sjónarmið um jafnræði og réttlæti þeirra sem tóku út séreignarsparnað á síðasta kjörtímabili, greiddu af honum skatt og oft í hæsta skattþrepi. Það er ósköp einfaldlega þarna sem munurinn liggur.

Ef við hefðum haft ráð á því og talið að ástand ríkisfjármála gæfi möguleika á því að gefa eftir skatttekjur á síðasta kjörtímabili hefðum við kannski velt fyrir okkur einhverju kerfi í þessa veru, en þetta kerfi felur ekki í sér skynsamlega ráðstöfun ríkisfjármála. Það er miklu auðveldara að beita öðrum aðgerðum til að efla sparnað eða skapa jákvæð áhrif, (Forseti hringir.) greiða fyrir niðurgreiðslu skulda. Það er t.d. hægt að greiða sérstakar vaxtabætur sem væru skilyrtar því að peningarnir færu inn á höfuðstól lána, (Forseti hringir.) það er ein leið.