143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:31]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason hefur í ræðu sinni farið yfir minnihlutaálit og fer mikinn yfir því að aðgerðir núverandi stjórnvalda, m.a. frumvarpið sem hér um ræðir, séu bara til þess gerðar að auka velgengni þeirra sem meira hafa á milli handanna. Hann orðar það reyndar þannig að þetta frumvarp sé gjöf til þeirra sem mest hafa, þ.e. að einstaklingar hafi 500 þús. kr. á ársgrundvelli til að greiða niður lán sín eða 750 þús. kr. til samskattaðra.

Mig langar því að spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason aðeins út í fyrri aðgerð og þær tölur sem við höfum fengið frá ráðuneyti varðandi þá tekjuhópa sem sú aðgerð náði til: Hvaða hugur lá að baki 110%-leiðinni? Tölur sem fylgdu fyrri skuldaaðgerðarfrumvörpum og við höfum fengið í hendur sýna að 775 heimili fengu öll yfir 15 millj. kr. í niðurfærslur en meðaltal niðurfærslna var 26 millj. kr. miðað við þessi 775 heimili. Þessi 775 heimili höfðu að meðaltali yfir 2 millj. kr. í laun á mánuði. Ég velti þessu fyrir mér af því að gagnrýnin núna er sú að við séum eingöngu að hugsa um þá sem meira hafa á milli handanna, en þessi aðgerð er bara einn liður af tíu í aðgerðaáætlun um skuldamál heimilanna. Á dögunum var m.a. kynnt skýrsla verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála þar sem komið er til móts við leigjendur og þá sem koma ekki jafn vel út í þessum frumvörpum. Hvaða hugur lá að baki því að 775 heimili voru með meðaltalsniðurfærslu upp á 26 millj. kr. og heildarmánaðartekjur upp á 2 millj. kr.? Var það kannski gjöf til þeirra sem meira hafa á milli handanna?