143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. 110%-leiðin í tíð síðustu ríkisstjórnar byggðist á því að verið var að ná kröfum umfram veðrými eigna. Í flestum tilvikum var tekið tillit til annarra eigna þannig að fólk gat ekki haldið eftir öðrum eignum, en það var verið að ryðja burt skuldum sem voru umfram verðmæti eigna. Það er vissulega umdeilanlegt hvort gera hefði átt kröfu um greiðslumat í þeim tilvikum og pína fólk sem hafði mikið milli handanna til þess að borga af skuldum sem voru langt, langt umfram verðmæti eigna þeirra. Hluti af aðgerðum og áherslum síðustu ríkisstjórnar var að ryðja burt því ónýta, taka burt skuldsetningu sem væri eins og klafi um háls fólks. Það var gert í þessu tilviki og nýttist jafnt þeim sem mikið höfðu og þeim sem minna höfðu. Að öðru leyti voru allar niðurfellingar byggðar á greiðslugetu í sérstakri skuldaaðlögun og í greiðsluaðlögun. Þær geta vissulega verið mjög miklar en þær byggja á greiðslugetu.

Það sem hér er gert er að það er verið að verja opinberu fé, sem er ekki til, vel að merkja, til þess að umbuna þeim sem mest geta lagt fyrir og mest geta borgað inn á lánin sín. En fólk sem getur ekki lagt fyrir eða fólk sem er ekki á vinnumarkaði fær enga aðstoð frá hinu opinbera. Ósanngirnin í þessu er himinhrópandi. Ef menn vilja greiða niður skuldir heimilanna vegna húsnæðis er best, eins og ég sagði áðan, að auka bara vaxtabætur með litlum tekjumörkum, eignamörkum eða einhverju slíku og gera það að skilyrði að þeim peningum sé ráðstafað beint inn á lánin. Þannig er það tryggt að þeir sem skulda mikið og hafa lítið milli handanna fái mest. (Forseti hringir.) Það er sanngjarnt.