143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:35]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir svör sín. Sá munur er á þessum aðgerðum að við erum að koma til móts við millistéttina í landinu, sem átti að bjarga sér sjálf í tíð síðustu ríkisstjórnar og hefur gengið á veggi í fjármálastofnunum, fólk sem er með millitekjur. Ég hef hitt hjúkrunarfræðinga, kennara og marga fleiri sem hafa bara átt að bjarga sér sjálfir og redda sér aukavinnu þótt enga vinnu hefði verið að fá aukalega á þessum árum og átt mjög erfitt með að ná endum saman.

Ég vil jafnframt biðja hv. þingmann um að kynna sér skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og þær tillögur sem þar eru til að taka á málefnum leigjenda. Þar eru t.d. tillögur um það hvernig hægt er að auka framboð á leigumarkaði til þess að lækka leigu. Vinsamlegast kynntu þér það áður en þú segir að ekki sé verið að gera neitt fyrir það fólk. (Gripið fram í.)