143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tillögur Samfylkingarinnar hafa lotið að því að mæta fólki með meðaltekjur, sem þessar tillögur gera ekki, og að mæta því fólki sem er raunverulega í vanda og býr við forsendubrest sem verður ekki að fullu bættur.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar núna er verið að afhenda peninga til fólks sem hefur í mörgum tilvikum ekki orðið fyrir neinum forsendubresti, fólks sem hefur jafnvel hagnast á þróun undanfarinna ára, fólks sem keypti löngu, löngu fyrir hrun og hefur ekki orðið fyrir neinu tjóni.

Það er líka vert að hafa það í huga að tillögur verkefnisstjórnarinnar núna snúa að framtíðarfyrirkomulagi húsnæðismála. Þær svara ekki þessari spurningu: Af hverju þurfa leigjendur í dag að borga af verðtryggðum lánum og fá ekki lækkun þeirra? Af hverju má fólk í húsnæðissamvinnufélögum, sem skuldar þar, ekki njóta sama réttar og þeir sem eru í eigin húsnæði? Fyrir því eru engin efnisleg rök. Þessi lán eru nákvæmlega eins, (Forseti hringir.) þau eru nákvæmlega jafn verðtryggð. Það er (Forseti hringir.) dapurlegt ef menn vísa til einhvers framtíðarfyrirkomulags og segja við (Forseti hringir.) leigjendur og búseturéttarhafa: Vegna þess að einhvern tíma kemur eitthvert framtíðarfyrirkomulag (Forseti hringir.) skuluð þið bara gjöra svo vel að borga … (Forseti hringir.)