143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Það eru nokkur atriði sem mig langar að tæpa á við hann. Í fyrsta lagi er það lánsveðshópurinn sem rætt var um og hvernig þessar aðgerðir sem við ræðum núna, og raunar líka þær tillögur sem ræddar verða hér á morgun, koma við þann hóp. Jafnvel þótt menn segi að þetta muni létta á greiðslubyrði og létta þar af leiðandi á þeim sem hafa lánað lánsveð lækkar lánsveðið ekki að mér skilst. Það væri gaman að heyra aðeins um það af því að ég veit að hv. þingmaður vann mjög ítarlega í þessu máli á sínum tíma.

Mig langar líka að heyra betur um þessi 125 þúsund heimili í landinu. Menn reikna með að 100 þúsund heimili geti notað þetta. Mig langar að biðja hv. þingmann að fara betur yfir þær tölur sem hann var með. Ef það eru 25% sem eiga húsnæði sitt, hvað eru margir leigjendur af þessum 125 þúsund heimilum? Hvernig í veröldinni geta menn komið að þessum 125 þúsund heimilum nema með því að reikna með að allir borgi eða a.m.k. 90–100% noti séreignarsparnaðinn (Forseti hringir.) og bæti sér þá þar við? Þá kemur líka spurningin um tekjur og hvort menn hafi efni á því.