143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er einfalt mál. Því miður er lánsveðshópurinn skilinn eftir eina ferðina enn. Það er dapurlegt. Það hefði verið mjög auðvelt að mínu mati að fella hann inn í þessa aðgerð þannig að menn hefðu getað hakað við sérstaklega ef þeir væru fastir með lánsveð og yfirveðsettir af þeim sökum. Það yrði skoðað hvað kæmi út úr aðgerðinni sem slíkri, höfuðstólslækkuninni, og síðan ættu menn rétt á að sækja um að mismunurinn yrði lagfærður þannig að þeir yrðu að lokum jafnsettir 110%-hópnum. Það væri tiltölulega einfalt að gera það annaðhvort á undan og síðan færu þeir sömu leið og aðrir, hefðu þá fengið sína 110%-leið og ættu væntanlega þá ekki rétt á niðurfærslu núna, eða öfugt. Það væri reiknað út hvað þeir fengju út úr þessu og mismunurinn væri svo einhvern veginn bættur og lífeyrissjóðirnir ættu að sjálfsögðu að taka þátt í þeim kostnaði.

Varðandi heimilin er vandinn sá að það er búið að gera heimilin að einhverju sjálfstæðu andlagi eins og það sé ótengt þjóðinni að öðru leyti í þessari umræðu. Hvar búa landsmenn? Jú, upp undir fjórðungur býr í eigin húsnæði (Forseti hringir.) skuldlaust, hátt í annað eins er á leigumarkaði, svo búa menn í húsnæðissamvinnufélögum, (Forseti hringir.) búseturéttaríbúðum, hjá félagsbústöðum, námsmenn búa á stúdentagörðum, aldraðir á dvalarheimilum og (Forseti hringir.) hjúkrunarheimilum. Þetta (Forseti hringir.) er afvegaleiðandi umræða.