143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:04]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir efnismikla ræðu og fróðlega. Ég tók eftir því að hv. þingmaður gerði að umræðuefni ávaxtaðar tölur til framtíðar, tók þann kostnað sem ríki og sveitarfélög hefðu af þessu með því að gefa sér einhverja ávöxtun til framtíðar, 3,5%. Þá hækka náttúrlega allar tölur. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði mátt nota aðra hærri tölu til að fá enn hærri útkomu eða lægri tölu til að fá lægri útkomu. Það er ekki á vísan að róa með 3,5% ávöxtun.

En skoðaði þingmaðurinn hina hliðina, þ.e. ef við förum að horfa á ávaxtaðar tölur, hvað varðar kostnað ríkis og sveitarfélaga, þurfum við ekki líka að horfa á ávaxtaðan ávinning heimilanna við að lækka skuldir sínar um sem nemur 160 milljörðum? Hvað skilar það miklu til heimilanna? Er það ekki hærri prósenta en ríkið væri að horfa á? Ef ríkið er að horfa á 3,5% eru heimilin þá ekki að borga kannski 4,5%? Við getum alveg skoðað tölurnar með þessum hætti, en þá báðar hliðarnar; finnst hv. þingmanni það ekki rétt?