143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðalávinningurinn af því, að mínu mati, að koma þessu elementi loksins inn í umræðuna er að menn gleymi því ekki. Það virtist ætla að vera þannig við 1. umr. og í greinargerðum frumvarpsins er þessu bara sleppt.

Það er alveg hárrétt, það má alltaf deila um forsendur sem menn gefa sér fyrir ávöxtun af þessu tagi. En það væri skrýtin hagsmunagæsla, fyrir hönd ríkis og sveitarfélaga, ef menn benda ekki á þennan þátt. Jákvæðar hliðar sem kæmu þá á móti, ávinningurinn sem má reikna af því að skuldir heimilanna lækki — jú, fyrir þau heimili að sjálfsögðu. En vandinn er sá, frú forseti, að það væru ekki endilega sömu heimilin sem verða að borga skatt eftir 25 til 30 ár og þau sem njóta góðs af núna. Við erum að færa til fjármuni milli kynslóða í landinu og þeir reikningar skulu vesgú vera réttir. Hvaða byrðar erum við að leggja inn á framtíðarkynslóðirnar í gegnum hluti af þessu tagi? Það dugar manni ekki að það komi einhverjum til góða.

Svo verður að benda á að við erum með umsagnir frá aðilum sem við væntanlega tökum eitthvert mark á eins og Seðlabankanum og fleirum, (Forseti hringir.) sem benda á hversu tæpt það getur staðið að af þessu verði mikill ávinningur ef verðbólgan fer hér úr böndunum, Seðlabankinn neyðist til að hækka vexti o.s.frv.